Hvít jakkaföt, silkiskyrta, perlueyrnalokkar og næla með bandaríska fánanum. Svona kom Kamala Harris okkur fyrir sjónir þann 7. nóvember síðastliðinn, þegar hún og Biden fluttu sigurræður að lokinni talningu atkvæða í bandarísku forsetakosningunum. Einhverra hluta vegna man enginn hvernig Biden var klæddur við sama tækifæri.

Af 49 varaforsetum Bandaríkjanna er Kamala fyrsta konan til að gegna embættinu. Foreldrar hennar voru innflytjendur í Bandaríkjunum, frá Jamaíka og Indlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem hörundsdökk manneskja er kosin varaforseti, sem ofan í kaupið á ættir að rekja til suðurhluta Asíu. Þarna mölbrotnuðu þrjú glerþök á einu bretti, í beinni útsendingu. Allur starfsferill Kamölu hefur í raun litast af brotnum glerþökum, hvort sem um ræðir í embætti saksóknara í San Francisco eða sem þingkona í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Converse-strigaskórnir sem varaforsetinn klæddist oftast nær í kosningabaráttunni vöktu ekki minni athygli en glerþökin sem hún rústaði. Fyrir þau sem eru búin að gleyma því er vert að rifja upp að hælaskór með hlébarðamynstri vöktu stundum meiri athygli fjölmiðla en það sem forsætisráðherrann sem klæddist þeim, Theresa May, hafði að segja. Ég hef ekki hugmynd um hvernig skóm Boris Johnson klæðist.

Við innsetningarathöfn Biden og Kamölu var eftir því tekið að hún klæddist fjólubláum kjól og fjólublárri kápu í stíl, með perlufesti. Fréttaflutningur af klæðaburði Biden við sama tækifæri fór fram hjá mér. Ég er þó sannfærð um að um allan heim eru stelpur á öllum aldri í Converse og með perlufesti í stíl, tilbúnar að brjótast í gegnum fleiri glerþök.