Ég fór til hjartalæknis um daginn. Lagði ofursnjallan æFóninn minn á borðið og þar nötraði hann með látum þangað til læknirinn skipaði mér að slökkva á honum. Bauð mér svo upp á að fá heilablóðfall og jafnvel drepast ef ég skrúfaði ekki varanlega fyrir þessar bölvuðu nótifikeisjons.

Fór að hugsa og komst að þeirri niðurstöðu að það eru mannréttindi að láta ekki ná í sig. Sítengingin er gerviþörf sem snjallsímarnir bjuggu til og samfélagið hefur síðan þróað þetta upp í ófrávíkjanlega kröfu sem er ekkert nema félagslegt ofbeldi og frekja.

Ég man þá tíð þegar maður tók landlínuheimasímann úr sambandi áður en maður fór í bað ef maður vildi virkilega slaka. Nú förum við með símann með okkur í bað!

Einu sinni þótti dónaskapur að hringja á matmálstíma. Nú fer síminn með borðbænina og ekki ólíklegt að maður myndi drepast úr næringarskorti ef maður byrjaði ekki máltíðina á því að taka mynd af matnum og raungera hann með birtingu á Instagram.

Hvaða vitleysa er þetta?

Hingað og ekki lengra hugsaði ég og ákvað að láta ekki kúga mig svona lengur. Fór í Elko og keypti heimsksímadruslu á 4.999 krónur og ákvað að segja skilið við eitraða eplið og öll þess samfélagsmiðlaöpp.

Djöfull! Engin Star Wars-hringitónn, engin mynd af kæró þegar hún hringir, synjun við kassann í Costco vegna þess að ég gat ekki tékkað á stöðunni á bankareikningnum í Arion-appinu, þrýstingurinn upp úr öllu vegna þess að ég gat ekki endurnýjað hjartalyfin með rafrænum skilríkjum, ekkert Spotify og heví stöðumælasekt vegna þess að ég var ekki með leggja.is appið!!!

Entist í tvo daga. Þetta er tapað stríð.