Tæplega helmingur íslenskra unglinga í 8. til 10. bekk sefur aðeins 7 klukkustundir eða minna á nóttu og er meðalsvefntími 15 ára unglinga aðeins um sex klukkustundir. Hér er átt við virka daga, þegar vakna þarf til skóla, sem víðast hvar hefst á slaginu 8.30.

Sam­kvæmt land­lækni ættu ungmenni að ná átta til tíu tíma svefni, svo ljóst er að við erum langt undir þeim viðmiðum. Eins og frægt er breytist eitt og annað þegar blessuð börnin umturnast yfir í unglinga og eitt af því er svefninn. Á meðan þörfin eykst, meðal annars vegna orkunnar sem fer í kynþroskann, eykst áhuginn á að vaka. Vinir, snjalltæki, sjónvarp, tómstundir og heimalærdómur tekur meiri tíma en áður og þarf að rúmast innan vökutíma sem þannig vill lengjast.

Meðaleinstaklingur ver þriðjungi ævinnar í svefn og það ekki að ástæðulausu, enda hvílist þá kroppurinn, endurnýjar sig og styrkir ónæmis- og taugakerfið. Skortur á svefni aftur á móti eykur líkur á margvíslegum heilsukvillum, auk þess sem svefnskortur hefur mikil áhrif á vinnuframlag og andlega líðan. Geðræn vanlíðan á unglingsárum getur svo leitt til langvarandi vanheilsu á fullorðinsárum. Rannsókn á heilsu og lífskjörum unglinga, sem gerð er í 44 Evrópulöndum á fjögurra ára fresti sýndi árið 2019 að nærri 40 prósent íslenskra 10. bekkinga fundu fyrir depurð vikulega. Eins hefur verið sýnt fram á að íslenskir unglingar neyti ótæpilegs magns orkudrykkja sem innihalda koffín.

Unglingarnir okkar eru daprir, þreyttir og þyrstir í koffín. Hvað er til ráða? Augljós lausn virðist vera að leyfa þeim að sofa lengur og mæta seinna í skólann, enda líklegra til árangurs en að berjast við snjalltækin sem sannarlega skerða svefninn. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins á þriðjudag virðast flestir hlutaðeigandi vera sammála um að færa upphaf skóladags til klukkan níu – hvað er það þá sem stoppar?

Bleiki dagurinn

Bleiki dagurinn er á morgun, föstudag, svo það fer hver að verða síðastur að draga fram úr fataskápnum fagurbleikar flíkurnar eða baka bleikt bakkelsi til að bjóða upp á í tilefni dagsins. Bleiki dagurinn er haldinn árlega til að sýna konum sem greinst hafa með krabbamein stuðning og samstöðu. Til að dreifa fagnaðarerindinu sem víðast er um að gera að birta bleikar myndir á samfélagsmiðlum og merkja #bleikaslaufan.