Nú siglum við hægum byr út úr vandræðunum sem heimsfaraldrinum fylgdu. Ekki svo að skilja að það verði sem tjöld séu dregin frá og takmarkalaus dýrð tilverunnar, eins og við vorum vön, blasi við. Og heldur ekki að efnahagur lands og þjóðar hrökkvi í sama horf og var.

En tíra hefur kviknað og verður vonandi bjartari og skærari eftir því sem vikurnar líða.

Þrátt fyrir að stóra bóluefnarannsóknin með Pfizer hafi farið í vaskinn, miðar örugglega í bólusetningum og brátt verður tekið til við að bólusetja fólk á áttræðisaldri og svo koll af kolli þar til allir verða bólusettir fyrir júnílok, gangi bólusetningardagatal stjórnvalda eftir.

Sóttvarnalæknir hefur meira að segja ljáð máls á því að fólk hefji faðmlög á ný, enda séu allir sem taka þátt í því heilir heilsu og hafi áhuga á svo mikilli nánd.

Þá hefur verið gefið undir fótinn með að grímuskylda verði aflögð, sem er sérstakt fagnaðarefni.

Hert var verulega á hömlum á landamærum nýlega og öllu slegið þar næstum í lás, enda sárafáir á faraldsfæti. Það segir sig sjálft að hertan ásetning þarf til að ferðast þegar framvísa þarf nýlegu neikvæðu veiruprófi við komuna, fara í sýnatöku, svo í sóttkví og aftur í sýnatöku að henni lokinni.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að farþegar frá Grænlandi séu undanþegnir þessu fyrirkomulagi og er til vitnis um að jafnskjótt og faraldur gengur niður í landi opnast landamærin fyrir ferðalöngum þaðan. Enda er það lykillinn að því að ferðaþjónustan komist á legg á ný og hjól atvinnulífsins snúist á auknum hraða. Við eigum því öll undir því að sem best gangi að ráða niðurlögum faraldursins sem víðast.

Í Fréttablaðinu sagði frá því í frétt í vikunni að aukins áhuga gæti meðal breskra ferðamanna á heimsóknum til landsins síðsumars og í haust. Haft var eftir Birnu Ósk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Icelandair, að þess sjáist lítil en skýr merki að Bretar séu farnir að huga að Íslandsferðum en landið hafi fyrst og fremst verið vetraráfangastaður fyrir Breta. Bretar eru lengst komnir Evrópuþjóða í bólusetningum og um fjórðungur þeirra hefur fengið fyrri skammt af bóluefni.

Þar var tekin sú ákvörðun að bólusetja sem flesta fyrri bólusetningu og mynda þannig mótstöðu gegn veirunni, þótt hún væri minni en fengist með tveimur skömmtum. Síðari bólusetningin réðist þá af framboði bóluefnis síðar meir.

Bretar hafa skorið sig úr hópi flestra annarra þjóða að þessu leyti. Má ekki vera að betra sé að fleiri hafi eitthvert ónæmi í blóði gegn veirunni en örfáir sem eru fullbólusettir?

Hvað sem því líður segir Birna Ósk jafnframt í fréttinni: „Við sáum síðasta sumar að allt í einu fylltist allt af Dönum og Þjóðverjum á Íslandi, vegna þess að staða faraldursins var góð þar líkt og hér heima. Þá var fólk mikið að bóka á síðustu stundu og það gæti líka gerst næsta sumar, enda mikill ferðavilji og ferðaþörf uppsöfnuð hjá fólki um allan heim.“

Guð láti gott á vita.