Skyndilega eru komin þrjú örflæðisfyrirtæki til Reykjavíkur. Eitt sem leigir hjól, Donkey Republic, og tvö sem leigja út rafskútur: Hopp og Zolo. Fleiri eru væntanleg. Auðvelt er að sjá að tækin eru vinsæl og mikið notuð. Það er gott, það þýðir að þeim á eftir að fjölga. Við fáum vonandi tæki fyrir fjölbreytta aldurshópa og fyrir fólk með ólíka hreyfigetu.

Lítil rafknúin farartæki eru framtíðin. Sumir munu vilja eiga þau. Sumir munu vilja taka þau á leigu. Sumir munu nota þau til daglegra ferða, aðrir grípa í þau til að hafa gaman. Sumar gerðir munu vonandi geta gagnast fólki sem á erfitt með að ganga lengri vegalengdir og tryggja þannig enn betra aðgengi að miðborginni eftir því sem göngusvæðum þar fjölgar.

Það lofaði þessu enginn beinlínis. Enginn flokkur sem ég man sendi fulltrúa í sjónvarpssal sem lofaði að fylla gangstéttir af rafhlaupahjólum og öðru eins. En þetta er samt að gerast. Á meðan bíða margir óþreyjufullir eftir snjallbílunum og vilja meira að segja þegar byrja að aðlaga borgina að þeirri tækni, þótt hún sé eiginlega ekki komin á markað af neinu viti.

Það er nefnilega oft þannig að markaðurinn finnur upp á mörgum sniðugum hlutum sem okkur pólitíkusa dreymdi ekki einu sinni um. Við í Viðreisn höfum þó tekið þessari örflæðistækni fagnandi. Við munum vinna að því að hún fái að þróast í Reykjavík. Við munum ekki hindra nýja aðila inn á markaðinn. Við munum reyna að forðast múra milli sveitarfélaga þegar kemur að notkun tækjanna. Við munum ekki banna þessi tæki eða drekkja þeim í óþarfa gjöldum ef þau reynast vinsæl. Samkeppnin á eftir að gera góða hluti. Það finnst okkur í Viðreisn spennandi.