Umræður um ofbeldi geta verið erfiðar fyrir þau okkar sem ala upp eða vinna með börnum. Okkur finnst tilhugsunin um að þau séu beitt ofbeldi eða beiti aðra ofbeldi hræðileg. Flest viljum við gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vernda börnin okkar og passa að þau viti að þau eigi sinn líkama sjálf. Þeirra líkami sé þeirra eigin til að nota og njóta og vera í, hann sé ekki skrautmunur fyrir aðra að dást að eða til að notfæra sér fyrir sína eigin ánægju. Þau hafi sín mörk og að þau mörk eigi aðrir að virða, rétt eins og þau eigi að virða mörk annarra. Að sama skapi viljum við að ef þau hafi gert á hlut einhvers að þau viðurkenni að þau hafi gengið of langt, geri sitt besta til að bæta fyrir það ásamt því að passa að brotið eigi sér ekki stað aftur. Þau láti efsökunarbeiðnir eiga sig og reyni ekki að fría sig ábyrgð með því að segja „en hann byrjaði!“ eða „en ég vissi það ekkert!“ heldur axli ábyrgð á sínum gjörðum.

Til eru ýmsar leiðir til að aðstoða börn við að innbyrða þessa vitneskju. Hér skal tæpt á nokkrum er varða ung börn.

Til að kenna barni að líkami þeirra sé ekki skrautmunur skulum við ekki koma fram við börn eins og skrautmun. Höldum aðdáun okkar á því hvað þau séu fín og sæt í skefjum. Hemjum okkur í að klæða þau í óþægilegar og ópraktískar múnd­eringar bara af því að okkur finnst það svo sætt. Stillum hárgreiðslum og skrauti sem eru börnunum ekki að skapi í hóf, þó það sé myndataka og þó það sé veisla. Ræðum frekar við barn um hvað það er að gera heldur en í hverju það er.

Til að kenna barni að líkami þess sé ekki fyrir aðra til að nota eða njóta skulum við ekki gera það án vilja þess. Föðmum og kyssum börn ekki án þeirra samþykkis. Tökum það ekki í fangið eða á kjöltuna því að okkur langar svo mikið að knúsa það ef barnið streitist á móti eða sýnir á annan máta að það vilji þetta ekki. Sleppum öllu „ætlarðu ekki að kyssa og knúsa ömmu bless?“ standi. Sjálfsagt er að spyrja eða bjóða faðminn en ef barnið snýr sér í hina áttina þá segjum við „allt í lagi“ og vinkum í staðinn.

Auðvitað þarf stundum að snerta börn án þeirra samþykkis. Það þarf að skipta um bleyjur og festa í bílstól og leiða yfir götu og fara til læknis. Þá er mikilvægt að útskýra fyrir barninu hvað er verið að gera og af hverju. Í það minnsta þarf að láta það vita hvað er að fara að gerast. „Ég er að taka þig upp núna og fara með þig inn á skiptiborð því ég ætla taka bleyjuna. Ég veit þig langar að halda áfram að kubba en ég verð að passa að líkaminn þinn sé hreinn og öruggur.“ Á þessu er hægt að byrja þegar barnið er nýfætt og með tímanum þegar sjálfstæði þess og geta eykst getur barnið frekar stjórnað hver snertir það og hvenær.

Til að börn læri að aðrir eigi að virða þeirra mörk skulum við virða mörkin þeirra. Ef við erum að kitla barn og það segir „hættu, stopp!“ þá skulum við hætta og stoppa þó að barnið sé að hlæja. Hlátur er ekki samþykki. Ef barninu finnst kitlið í raun gaman mun það biðja um meira. Ef barnið var komið með nóg þá lærir það að það stjórnar því sem er gert við líkama þeirra.

Til að barnið læri að virða mörk annarra skulum við halda þeim mörkum sem við höfum sjálf. Stundum eru þarfir barns miklar, eins og þegar veikt barn vill hanga í fangi allan daginn, en reynum þó eftir bestu getu að halda okkar eigin mörkum. Förum ein á klósettið þó að barnið vilji koma með, svo lengi sem það er öruggt frammi, ef það er það sem við viljum og þurfum á að halda. Klárum að borða matinn okkar þó að barnið vilji lesa. Sýnum því skilning þegar barnið er ósátt við mörkin sem við setjum, án þess að gefa eftir eða reiðast. „Oh, ég sé að þú vilt að ég hætti að borða núna og komi að lesa! Það getur verið erfitt að bíða. Ég ætla að klára matinn minn og svo skal ég lesa með þér.“ Hjálpum börnunum að lesa í og virða mörk annarra. „Mér sýnist litli bróðir ekki vilja knús núna, sérðu, hann er að snúa sér í burtu.“ „Ég ætla ekki að leyfa þér að lemja Siggu. Ég ætla að stoppa höndina þína núna svo að við séum öll örugg.“

Til að börn læri að axla ábyrgð á gjörðum sínum og geti einlæglega beðist afsökunar skulum við axla ábyrgð þegar við göngum of langt án þess að snúa því upp á barnið. „Fyrirgefðu að ég öskraði á þig. Ég á ekki að missa svona stjórn á mér. Ég ætla að vanda mig betur næst.“ Svo skulum við skoða hvað í aðstæðunum varð til þess að við létum svona og finna hvað við þurfum að gera til að geta í raun vandað okkur betur næst. Kannski þurfum við að sofa meira, minnka álag eða ræða við fagaðila.

Saman getum við stuðlað að því að næstu kynslóðir þekki betur inn á sínar þarfir og séu færari í samskiptum. Byltingin byrjar á skiptiborðinu.