Aukið framboð er lykillinn að því að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Fram til þessa hefur vantað skýra sýn um hversu margar íbúðir þarf að byggja á ári hverju. Við erum að sjá að í ár og á næsta ári er verið að byggja tæplega 3.000 íbúðir. Í raun þá ætti að vera að byggja um 4.000 íbúðir á ári. Fram til þessa hafa spár um mannfjölda ekki skilað sér inn í áætlanir um fjölda húsnæðis. En nú verður breyting á. Áætlunum verður fylgt eftir með aðgerðum byggðum á rauntímaupplýsingum í samstarfi við sveitarfélög í landinu.

Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði skilaði 28 tillögum í gær og miða þær allar að því að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði, hvort tveggja til skemmri og lengri tíma.

Hér er um raunverulega byltingu að ræða.

Í fyrsta sinn sjáum við fram á að hafa yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn með betri upplýsingum. Við ætlum að setja annars vegar aðgerðaáætlun til fimm ára, með 20 þúsund íbúðum, og hins vegar húsnæðisstefnu til fimmtán ára. Auk þess erum við að hefja samtal við sveitarfélögin um aukna uppbyggingu íbúða samhliða því að styrkja leigumarkaðinn.

Húsnæðisöryggi og jafnt aðgengi allra að hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði verður forgangsmál. Sérstök áhersla verður lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins.

Þá þarf að einfalda skipulagsferla til lækkunar á byggingarkostnaði og tryggja sveitarfélögum heimildir til að skilyrða að allt að 25% íbúða verði almennar íbúðir, félagslegar íbúðir, óháð eignarhaldi, svokölluðu Carlsberg-ákvæði.Mörg verkefnanna eru á verksviði innviðaráðherra og ég hlakka til að beita mér fyrir þessum umbótum.

Mörg þeirra hafa þegar verið undirbúin á vettvangi ríkisstjórnarinnar og í ráðuneytinu. Það að húsnæðismál, skipulagsmál, sveitarstjórnarmál og samgöngumál eru á einum stað í Stjórnarráðinu veitir aukin tækifæri til að taka mikilvæg skref til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði. n