Fyrir stuttu birti Ríkisendurskoðun skýrslu um þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins þar sem fram kemur að lög hafi lagt þá skyldu á hana að aðgreina samkeppnisrekstur frá öðrum með því að stofna um hann sérstakt hlutafélag. Þetta hafi borið að gera ekki seinna en í janúar á síðastliðnu ári eða fyrir um 23 mánuðum.

Þetta varð þó aldrei og var skýrt þannig út af formanni stjórnar þegar skýrslan kom út, að eftir henni hafi verið beðið og nú verði settur vinnuhópur í að undirbúa málið. „Við erum mjög fegin að vera loksins búin að fá stimpilinn,“ sagði hann við Fréttablaðið.

Menntamálaráðherra bætti um betur og sagði við blaðið: „Ég fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að vinna skýrslu um fjárhagslega aðgreiningu almannaþjónustu og samkeppnisreksturs í bókhaldi Ríkisútvarpsins ohf. Það er mikilvægt að eyða allri óvissu í þessum efnum. Ríkisendurskoðun tekur af öll tvímæli um nauðsyn þess að stofna dótturfélag fyrir samkeppnisrekstur og ég mun beina þeim tilmælum til stjórnar.“

Þegar Fréttablaðið bar þessi ummæli stjórnarformanns og ráðherra undir ríkisendurskoðanda sagði hann að aldrei hafi verið nein lagaleg óvissa fyrir hendi um skylduna til að stofna dótturfélagið.

Af endurskoðunarskýrslunni virðist helst ráðið að stjórnendur Ríkisútvarpsins hafi aðallega haft áhyggjur af að virðisaukaskattsinneign sem myndast í samkeppnisrekstri tapaðist og kæmi ekki til frádráttar virðisaukaskattsskuldbindingu sem myndaðist í öðrum hlutum starfseminnar.

Þá kemur einnig fram í endurskoðunarskýrslunni að ekki virðist merkjanlegur áhugi innan Ríkisútvarpsins að fara að ákvæðum laga um hana, einkum 4. gr., sem mælir skýrt fyrir um stofnun dótturfélags. Því hafi verið mælst til að lögunum yrði breytt. Stofnunin vill ekki fara að lögum og vill sem sagt að þeim sé því breytt. Ætli það sé þjónusta sem öðrum stendur til boða?

Ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að Ríkisútvarpið telji sig hafið yfir lög og rétt og þurfi ekki að fara að lögum frekar en því þykir sjálfu ástæða til.

Þetta er óboðlegt og grefur undan trausti á stofnun sem rekin er að stóru leyti fyrir almannafé og almenningur á þar engrar undankomu auðið.

Á hinn bóginn varpar þetta ljósi á hversu erfitt það virðist vera að koma fram breytingum á rekstarumgjörð stofnunarinnar. Nægir þar að nefna þá sjálfsögðu kröfu sem uppi hefur verið árum saman um að stofnunin láti almannafé til rekstrar hennar duga en sogi ekki jafnframt til sín langt yfir tvo milljarða af innlendu auglýsingafé og sé þar í markaðsráðandi stöðu. Hafi Ríkisútvarpið sjálft ekki áhuga á að breyta því, sem varla er von, verður það ekki.

Ráðherra og Alþingi horfa aðgerðarlaus á og virðast vera á sömu bylgjulengd.