Síminn minn sendir mér reglulega stutta samantekt um hve miklum tíma ég eyði í honum, hvernig notkunin hafi þróast milli vikna og í hvaða forritum ég er helst. Þarna eru allar tölur í sömu áttina, veldisvöxtur eins og þríeykið myndi orða það og að mestu utan sóttkvíar.

Forritaraherinn í Silíkon-dalnum les mig eins og opna bók og veit að til þess að eiga athygli mína þarf fyrst og fremst að halda mér við efnið, senda mér reglulega rauðmerkta tilkynningu og vekja hjá mér óljósa von að einhverjum finnist ég sniðugur. Þá kippist ég við og er mættur án tafar eins og hlýðinn hundur inn á viðkomandi samfélagsmiðil.

Viðvera á samfélagsmiðlum er stöðug þeysireið. Það er ýtt að notandanum tilkynningum, skilaboðum og alls konar speki um lífið og tilveruna sem ætlast er til að maður tileinki sér. Eins og þetta sé ekki nógu lýjandi allt saman þá þurfum við líka að klæða okkur í viðeigandi búning fyrir hvern miðil. Í einum flipanum erum við einlæg og tilfinningasöm, í öðrum hnyttin og gagnrýnin og í þeim þriðja erum við að horfa á stóru myndina og róa á dýpið. Svolítið eins og að eiga marga ólíka vinahópa, hver með sínum talsmáta, menningu og gildum sem maður tekur upp og gerir að sínum í hvert sinn sem hópurinn hittist.

Álímdur mæk á kinn

Um daginn setti ég inn fyrstu færsluna mína á LinkedIn sem er fyrst og fremst hugsaður til að tengja fólk í atvinnulífinu. Andrúmsloftið er svolítið eftir því. Þarna fyrst og fremst vandað efni úr viðskiptalífinu, fólk deilir skýrslum og glærukynningum um nýjar áherslur í umhverfis- eða mannauðsmálum og hvað það sé stolt að tilheyra teyminu sínu. Þetta eru draumastarfsmenn hvers fyrirtækis og ekkert pláss fyrir hauginn sem mætir seint og illa greiddur og getur ekki beðið eftir því að klára daginn.

LinkedIn-sjálfið er mætt eldsnemma í Hörpu á morgunverðarfund atvinnulífsins og stígur jafnvel á stokk með álímdan hljóðnema á kinninni til að tala um eitthvað mikilvægt. Eftir að hafa straumlínulagað og nútímavætt allan liðlangan daginn eru það utanvegahlaup eða hjólatúr um Jaðarinn, nema hvort tveggja sé, á meðan er kannski hlustað á nýjasta hlaðvarpið frá Bill Gates. Mögulega vínglas um kvöldið og þá gott rauðvín og horft á heimildarmynd um brýn úrlausnarefni heimsins.

Vegferð og sjálfsvinna

Fyrir Instagram þarf svo að klæða sig í allt annan búning. Þar snýst allt um myndmálið og að vinna í sjálfum sér. Instagram-sjálfið deilir sjálfsmyndum, gjarnan horfandi hugsi út í tómið, helst ber að ofan og með fylgir gríðarþungur texti um persónulega vegferð. „Tvö ár í dag“ er algeng opnun. Getur markað ýmiss konar tímamót. Stundum eru tvö ár frá því að viðkomandi ákvað að fara að standa með sjálfum sér, aðhyllast ketó-lífsstílinn eða byrja að kæla. Með fylgir spakmæli og viska, styrkurinn kemur að innan og það trúir enginn á þig ef þú gerir það ekki sjálfur. Þarna er líka lögheimili áhrifavaldanna, sem inn á milli vörukynninga minna okkur á að lífið er alls konar þótt yfirgnæfandi meirihluti þeirra sé reyndar barnlaust fólk á þrítugsaldri sem er í alveg þrusu formi og vippar fram verðlaunaeldhúsi á þriðjudegi.

Kaldhæðið samfélagsgrín

Mótefni við allri þessari fölskvalausu einlægni er svo Twitter, þar sem allir eru kaldhæðnir, klárir og betri en næsti maður. Ef einhver tvítar um að hann borði ekki kjöt, þá er sá næsti alfarið vegan. Ef einhver kaupir rafbíl, er sá næsti alveg hættur að nota bíla og gengur bara. Og ef einhver ætlar að lýsa yfir stuðningi við málstað þá segir sá næsti honum að þegja, hann hafi ekki raunverulegan skilning á baráttunni.

Facebook er húsfélagsfundur

Allt byrjaði þetta samt á Facebook og þar erum við öll líka ennþá. Sá miðill hefur hins vegar orðið að hálfgerðri ruslakistu, þar ægir öllu saman; týndur köttur eða minningarorð um fallinn ættingja, „þessi gerir alla daga betri“ frumsýning á nýjum lífsförunautum, frænkur að setja inn myndaalbúm þar sem maður sér þrjár fyrstu myndirnar og getur ýtt á hinar 88 myndirnar líka. Þarna eru líka allir prívat-hóparnir og spjallþræðirnir sem munu alveg örugglega ekki þola mikla skoðun þegar stóri gagnalekinn kemur. Að ógleymdum íbúagrúppunum, þar sem fólk tilkynnir um dularfullar mannaferðir á milli rifrilda um pólitíska ábyrgð vegna ómálaðs grindverks. Á Facebook er maður einhvern veginn enginn sérstakur, svolítið eins og að mæta á stóran húsfund. Vont að sleppa því að mæta samt því maður gæti misst af einhverju.

Við erum einhvern veginn allt í senn; frumkvöðlar og atvinnulífsfólk, kakódrekkandi tilfinningaverur í stöðugri sjálfsbætingu og slökun, kaldhæðnir samfélagsrýnar og úthverfaíbúar sem höfum auga með týndum gæludýrum. Ég hef ekki enn skráð mig á TikTok en ef ég myndi slá til væri örugglega stutt í að ég væri farinn að rykkja líkamanum til eins og unglingur í óljósum danshreyfingum.

Vikulega skýrslan frá símanum minnir okkur svo á það mikilvægasta, að eyða ekki of miklum tíma við skjáinn.