Hug­myndin um skóla án að­greiningar var inn­leidd í grunn­skóla­lög á grund­velli Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og Sala­man­ca yfir­lýsingarinnar frá 1996 og gengur út á það að skóli skuli mæta sér­hverju barni í námi og fé­lags­starfi óháð at­gervi þess eða stöðu.

Þetta var upp­haf lega sett í lög til þess að styrkja stöðu fatlaðra barna þannig að þau megi sem best þroskast og dafna innan sam­fé­lagsins, en ekki á jaðri þess. Þessi hug­mynda­fræði beinir ekki síður sjónum að kenningum um fjöl­greind og þeirri stað­reynd að sér­hvert barn, strákur eða stelpa, fatlað sem ó­fatlað, inn­fætt eða að­flutt, er ein­stakt og hvert og eitt býr yfir eigin hæfi­leikum og getu. Öll börn þurfa að fá tæki­færi til að þroska hæfi­leika sína hvort sem er í bók­námi, verk­námi eða listum.

Þessi hugsun hefur fært nýja sýn inn í skóla­starf með aukna á­herslu á sam­starf kennara og starfs­fólks og margir skólar hafa náð góðum árangri með inn­leiðingu fjöl­breyttra og sveigjan­legra kennslu­hátta.

Hins vegar hafa stjórn­völd bein­línis unnið gegn þessum mark­miðum með ofur­á­herslu á bók­leg, sam­ræmd próf þar sem allir skulu mældir með sömu mæli­stikunni. Þá skal steypa alla í sama mót óháð styrk­leika eða á­huga­sviði, sem hefur orðið til þess að skólar hafa veigrað sér við að víkja frá þeirri línu sem mun koma til prófs, á kostnað frum­leika, sveigjan­leika, verk­náms og list­greina.

Slag­orð um mennta­sókn verða eins og ó­þægi­legt suð í eyrum skóla­fólks ef ekki fylgir breytt for­gangs­röðun og fjár­munir til at­hafna.

Það er ekki nokkur vafi að við þurfum að veita skólum meira svig­rúm til að koma til móts við hvert og eitt barn, en fyrst og fremst þarf að veita kennurum svig­rúm til að vinna eftir aðal­nám­skrá án þess að vera með hendur bundnar og fætur hlekkjaða.