Undanfarna viku hef ég reynt að nota farsímann minn eins og nafnið gefur til kynna – sem síma. Auðvitað kemur það ekki til af góðu. Mín kæra Samsung, sem ég er vön að hafa samhangandi við mig nótt sem nýtan dag, er í viðgerð og því hef ég þennan lánssíma.

Þessi lánssími er ekki með neitt af símanúmerunum mínum og því hringi ég ekki í neinn. Né sendi ég sms, sem mér skilst að einhverjir örfáir aðrir en stofnanir og fyrirtæki noti enn til samskipta.

Nýi síminn er ekki heldur með Messenger, Facebook, Twitter, Instagram, Whatsapp, TikTok, Slack, Webex, Google Meet, Zoom eða Snapchat til að eiga í samskiptum. Hann er ekki með Spotify, útvarpsöppin, Audible eða podcast-öppin til að hlusta. Það er ekkert Netflix, Prime eða Nova til að horfa. Ekkert heilsuapp til að segja mér hvað ég eigi að gera í ræktinni.

Ég hef ekki Trello, Asane, Canva, tölvupóst og Google Drive til að segja mér hvað ég eigi að vera að gera í vinnunni. Ég get ekki lagt með Parka, keypt strætómiða, hoppað eða stokkið á Wind. Ég þarf að bíða í röð þegar í hringi á leigubíl. Ég safna ekki punktum á kaffihúsinu, panta ekki pítsu og þurfti að hefja dauðaleit að ökuskírteininu og greiðslukortunum.

Þetta gæti verið hátimbraður pistill um hvað nútímalífið væri miklu betra ef við værum ekki bundin við þessa tækni. En það er það ekki. Ég sakna símans míns. Ég sakna allra appanna minna sem gera lífið þægilegra. Ég sakna þess að hafa allt við fingurgómana þegar ég er ekki við tölvu. Kæra Samsung, komdu aftur heim!