Þeim fækkar sem aldir voru upp við að vegakerfið á Íslandi væri nær allt malarvegir. Fyrir 40-45 árum voru nánast allir vegir malarvegir og bundið slitlag var einungis innanbæjar og í nágrenni höfuðborgarinnar. Átakið um að koma bundnu slitlagi á vegakerfið hófst fyrir alvöru og af krafti upp úr 1980, þegar þróaðar höfðu verið ódýrari leiðir en áður, svokallaðar vegklæðingar.

Á fyrstu árum þess áratugar var mikið lagt af klæðingum og sum árin skiptu kílómetrarnir hund­ruðum sem fengu bundið slitlag.Nú er svo komið að um 5.800 km af tæplega 13.000 km vegakerfi eru lagðir bundnu slitlagi á landinu öllu.

Tölurnar segja þó ekki alla söguna því um 97 prósent af öllum akstri fara fram á bundnu slitlagi, enda tekur forgangsröðun framkvæmda mikið tillit til umferðarþunga.

Eigi að síður eru mörg verk óunnin í þessu efni, enda eru ennþá 500 km af malarvegum í stofnveganetinu og stór hluti tengi- og héraðsvega eru malarvegir.

Með aukinni umferð hefur Vegagerðin lagt sífellt fleiri kílómetra af malbiki, sem er mun dýrara og endingarbetra en klæðing.

Mestur hluti bundinna slitlaga á vegakerfinu er þó ennþá lagður klæðingu. Nú er svo komið að malbik hefur verið lagt til Reykjanesbæjar, austur að Þjórsá og upp í Borgarnes, auk þess sem malbikað hefur verið í nágrenni Akureyrar og á fyrsta kafla Biskupstungnabrautar.

Hér er það umferðarþunginn sem mestu ræður en því meiri sem umferðin er þeim mun hagkvæmara verður að leggja malbik í stað klæðingar.Tilkoma klæðinga leiddi til þess að unnt var að leggja bundið slitlag á þrefalt til fjórfalt lengri kafla en annars hefði verið, þar sem kostnaðurinn er miklu lægri.

Klæðingin hentar vel á fáfarnari vegi og hefur gert kleift að fara mun hraðar í þessar framkvæmdir en annars hefði verið.

Vegagerðin fjallaði um bundin slitlög á ráðstefnunni Bundin slitlög – betri vegir, í Hörpu 14. september síðastliðinn. Fjallað var um málefnið frá mörgum áhugaverðum sjónarhornum og einnig með erlendum augum en gestafyrirlesarar komu frá Hollandi, Norður-Írlandi og Svíþjóð.

Hægt er að horfa á upptöku af ráðstefnunni og nálgast glærur fyrirlesara á vefsíðu Vegagerðarinnar, vegagerdin.is.