John Sweeney er einn fremsti rannsóknarblaðamaður Bretlands. Hann hefur fjallað um stríð, pólitík og þjóðarmorð. Hann hefur flutt fréttir frá Bosníu, Tsjetsjeníu og Írak. Hann hefur lent í loftárásum, kúlnaregni og upplifað það að serbneskur stuðningsmaður Slobodan Milosevic styngi dínamít túbu upp í nefið á honum. Verkefnið sem kom honum úr jafnvægi var hins vegar af öðrum meiði.

Vorið 2007 hélt Sweeney til Bandaríkjanna til að gera fréttaskýringaþátt um Vísindakirkjuna fyrir Breska ríkisútvarp BBC. Á meðan gerð þáttarins stóð var Sweeney og samstarfsfólk hans elt á röndum af skuggalegum einkaspæjurum og starfsfólki kirkjunnar. Þau voru áreitt, þeim var hótað, á þau var öskrað og um þau var njósnað. „Ég er ekki hræðslugjarn,“ sagði Sweeney nýverið um atvikið sem markaði feril hans. „En þarna var ég hræddur – og ég er enn hræddur.“

Í heila viku stóð Sweeney af sér ógnartilburði háttsettra embættismanna kirkjunnar sem jusu yfir hann svívirðingum á meðan þeir beindu að honum sínum eigin kvikmyndavélum. En á sjöunda degi brást honum æðruleysið. Hann svaraði fyrir sig fullum hálsi og öskraði á ofsækjendur sína.

Vísindakirkjan var stofnuð árið 1953 af vísindaskáldsagnahöfundinum L. Ron Hubbard. Kirkjan boðar að innra með fólki búi andar utan úr geimnum. Meðlimir safnaðarins greiða kirkjunni fúlgur fjár fyrir að hreinsa sig af neikvæðum tilfinningum. Þótt Vísindakirkjan kalli sig trúarsöfnuð hafa aðrir sagt samtökin eiga meira skylt við alþjóðlegt stórfyrirtæki. Enn aðrir hafa sakað kirkjuna um að vera hættulegan sértrúarsöfnuð, eða költ.

Þegar John Sweeney hóf að búa til fréttaskýringaþátt um Vísindakirkjuna upphófst ekki aðeins skipulegt átak til að hræða hann. Vísindakirkjan fór einnig í herferð til að sverta mannorð hans. Myndskeiðið af Sweeney þar sem hann öskrar á kvalara sinn varð uppistaðan í „heimildarmynd“ sem kirkjan framleiddi. Í myndinni voru Sweeney og teymi hans sögð brjóta verklagsreglur BBC. Myndinni var komið til yfirmanna Sweeney og afhent breskum þingmönnum á DVD diskum.

Meðferð Vísindakirkjunnar á Sweeney var langt frá því að vera handahófskennd. Það var L. Ron Hubbard sjálfur sem gerði það að opinberri stefnu kirkjunnar að ráðast harkalega og með öllum ráðum gegn þeim sem gagnrýndu hana. Fyrir barðinu á stefnunni sem gengur undir heitinu „réttmætt skotmark“ (e. „fair game“) hafa orðið fyrrverandi meðlimir kirkjunnar, blaðamenn, opinberir starfsmenn og stofnanir á borð við skattinn í Bandaríkjunum.

Ef aðferðafræðin hljómar kunnuglega er skýringarinnar ekki langt að leita. Á dögunum birti útgerðarfyrirtækið Samherji enn eitt myndbandið til höfuðs Helga Seljan, blaðamanni hjá fréttaskýringaþættinum Kveik. Samherji hefur sótt hart að gagnrýnendum sínum í kjölfar fréttaflutnings af athæfi fyrirtækisins í Namibíu. Blaðamenn eru ataðir auri svo að atvinnuöryggi þeirra er ógnað, uppljóstrarar eru hundeltir af skuggalegum einkaspæjurum og óbreytt starfsfólk eftirlitsstofnana lifir í ótta við málshöfðanir.

En stjórnunarstefnan „réttmætt skotmark“ er ekki það eina sem Samherji og Vísindakirkjan eiga sameiginlegt. Þingmaðurinn Brynjar Níelsson fann sig á dögunum knúinn til að brýna fyrir landsmönnum mikilvægi Samherja sem hann kvað „öflugt fyrirtæki“ sem gerði „mikil verðmæti úr auðlindum okkar.“

Samherji er ekki aðeins útgerðarfyrirtæki. Samherji er sértrúarsöfnuður sem, rétt eins og Vísindakirkjan, byggir tilvist sína á trú fólks á helberan uppspuna. Samherji segist

breyta vatni í vín. En uppspretta verðmætanna sem Brynjar talar um er ekki milliganga Samherja heldur fiskurinn í sjónum.

Það verður ekki fyrr en við látum af trúnni sem ægivaldi költ-leiðtoganna linnir