Þegar ég var barn tók allt full­orðið fólk í kringum mig þátt í á­róðurs­her­ferð til þess að fegra Ís­land í augum mínum og jafn­aldra minna. Á Ís­landi var engin fá­tækt, enginn ras­ismi, engin kven­fyrir­litning og engin hómó­fóbía. Þetta er ­bon­kers, en ég man vel eftir því sem barn að hlusta á kennara mína halda þessu fram eins og hei­lögum sann­leik. Þjóðin byggði á þessu sjálfs­mynd sína: við hin for­dóma­lausa, femíníska para­dís sem sótti hrun­verja til saka og býður allt gott fólk vel­komið.

Þegar vara­ríkis­sak­sóknari spyr hvort skortur sé á hommum á Ís­landi er nóg fyrir æðstu ráða­menn þjóðarinnar að lýsa því sem ó­heppi­legu at­viki. Hann þarf enga á­byrgð að axla á hatri sínu.

Þegar ráðist er að tákni hin­segin sam­fé­lagsins og fánar skornir niður á Hellu, á sama tíma og gelt er á hin­segin fólk á götum úti og ung­menni lýsa í fjöl­miðlum yfir ótta við að fara út úr húsi, þá leyfir full­trúi lög­reglunnar sér að segja að þetta heiti ekki haturs­glæpur heldur al­mennt skemmda­verk.

Þetta er ógn­væn­legt á­stand og á­byrgðin er víða. Ekki síst hjá fjöl­miðlum, þeim sem leyfa haturs­fullri orð­ræðu að vaða uppi undir fréttum á sam­fé­lags­miðlum. Margir fjöl­miðlar ala bein­línis á hatri, leita að færslum og skrifum fólks sem eru lík­leg til þess að vekja upp hat­römm við­brögð lægsta sam­nefnara les­enda­hóps síns. Tvær systur­­út­gáfur til­heyra þeim hópi, DV og Hring­braut.

Bak­slagið er hafið og það er okkar að bregðast við. Ef vinir þínir gelta á hin­segin fólk er það á þína á­byrgð að siða þá til. Ef fréttirnar þínar beina hatri að jaðar­hópum er það á þína á­byrgð að endur­hugsa rit­stjórnar­stefnuna. Ef vara­ríkis­sak­sóknari lætur hómó­fóbíu sína í ljós er það á þína á­byrgð að láta hann fara, Jón Gunnars­son. Annað er aumingja­skapur.