Hin­segin dagar náðu há­marki með Gleði­göngu um mið­bæ Reykja­víkur á laugar­daginn. Eftir tveggja ára hlé á göngunni og um­ræðu um bak­slag í réttinda­bar­áttu hin­segin fólks var blásið til alls­herjar veislu og stút­fullar götur mið­bæjarins báru sam­stöðunni fagurt merki.

Margs­konar hópar fögnuðu fjöl­breyti­leikanum með því að taka þátt í göngunni undir fánum og slag­orðum til stuðnings mann­réttindum hin­segin fólks. Sláandi slag­orð eins hópsins vöktu sér­staka at­hygli, hópsins sem hefur hvað mest átt undir högg að sækja í bar­áttunni undan­farin ár, trans fólks.

Þessi slag­orð snéru að bið­listum eftir að­gerðum í kyn­leið­réttingar­ferli sem lengdust tals­vert á Co­vid-tímum og eru nú um eitt og hálft ár. Skilti með orðunum: „Þessi brjóst eru enn á bið­lista!“ í höndum ein­stak­lings með ber brjóstin, brjóst sem við­komandi vill ekki, raun­gerðu á­standið fyrir þeim sem á gang­stéttum stóðu til að sýna stuðning í verki. En undir lok síðasta árs voru þrettán ein­staklingar á bið­lista eftir brjóst­námi, á­tján biðu gerðar leg­ganga og einn reður­upp­byggingar. En orðin: „Bið­listi sem styttir sig sjálfur!“ af næsta kröfu­skilti víkja ekki úr huga mér. Skugga­lega skýr skila­boð. Fólk hrein­lega gefst upp.

Fyrir nokkrum árum tók ég við­tal við þjóð­þekkta konu þar sem eitt um­ræðu­efna var sú stað­reynd að barn hennar hefði komið út sem trans kona. Þegar ég spurði hana hvernig þau hjónin hefðu tekið því að einka­barn þeirra væri trans svaraði hún að í þeirra huga væri þetta ekki flókið – bar­áttan snerist um að halda lífi í barni þeirra.

Auð­vitað getur verið erfitt að skilja það sem er framandi og sjálfri finnst mér trans um­ræðan oft á­kveðið torf. En það er svo margt sem ég skil ekki, ekki skil ég skammta­fræði, hvernig hægt er að þrí­víddar­prenta líf­færi eða skjóta mannaðri geim­flaug til tunglsins! En það skiptir ekki máli að ég skilji það ekki – það er til fólk sem skilur þetta allt.

Loka­mark­miðið hlýtur alltaf að vera að koma í veg fyrir ó­nauð­syn­lega þjáningu. Per­sónu­lega er mér sama hver kyn­hneigð eða kyn­vitund fólksins í kringum mig er; hvort það skil­greinir sig sem dul­kynja, flæði­gerva eða frjáls­gerva – en mér er ekki sama hvort þetta fólk þjáist.

Til þess að koma í veg fyrir það þurfum við að átta okkur á því að kyn­leið­réttingar­að­gerð er ekki val­kvæð að­gerð eins og að láta laga slappan maga eða stór nef. Hún er lífs­bjargandi að­gerð og þolir enga bið!