Hvað tefur? Níu mánuðum eftir að kjarasamningar losnuðu er enn ósamið við meginþorra launafólks á opinberum vinnumarkaði. Þær skýringar sem einkum hafa verið gefnar er að erfiðlega hafi gengið að útfæra hugmyndir um styttingu vinnuvikunnar. Ekki hljómar það trúverðugt. Sennilegra er að stéttarfélögin vilji ná í gegn meiri kjarabótum en samið hefur verið um við nánast allt launafólk á almennum vinnumarkaði. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem opinberi geirinn ætlaði sér að leiða launaþróunina. Útilokað er að því verði leyft að gerast í þetta sinn.

Langdregnar kjaraviðræður opinberra starfsmanna sæta furðu nú þegar kreppir að í efnahagslífinu. Í aðdraganda kjarasamninga á síðasta ári var á það bent að svigrúm atvinnulífsins til að taka á sig launahækkanir væri afar lítið. Samkeppnishæfni fyrirtækja hefði versnað til muna samhliða miklum nafnlaunahækkunum og gengisstyrkingu krónunnar. Markmiðið ætti því að vera að varðveita þá miklu kaupmáttaraukningu sem náðst hefði á síðustu árum og um leið skapa forsendur fyrir vaxtalækkanir til að sporna gegn þeim efnahagssamdrætti sem væri í vændum. Við sjáum nú að þau viðvörunarorð áttu sannarlega við rök að styðjast. Þótt samið hafi verið um hóflegar launahækkanir – að minnsta kosti í íslensku samhengi – þá var samningurinn sumum fyrirtækjum þungbær og afleiðingarnar birtast okkur nú í vaxandi atvinnuleysi og fækkun starfa.

Á Íslandi hefur hins vegar verið farin þveröfug leið og eiginfjáraukar á fjármálafyrirtæki hækkaðir enn meira í miðri niðursveiflu með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á framboð lánsfjármagns.

Útlitið er tvísýnt. Nýjar hagtölur sýna að halli á vöruviðskiptum við útlönd hefur minnkað talsvert á síðustu mánuðum á milli ára. Útflutningur hefur ekki aukist sem neinu nemur heldur erum við að sjá snarpan samdrátt í innflutningi. Minni vöruviðskiptahalli ætti að óbreyttu að skila sér í meiri reiknuðum hagvexti en ella en það sem meira máli skiptir er að tölurnar sýna hins vegar að fyrirtæki og heimili virðast vera að halda að sér höndum í fjárfestingum og neyslu. Það ætti ekki að koma á óvart. Framboð lánsfjár í bankakerfinu er meðal annars af skornum skammti og þegar fjármögnun býðst eru vaxtakjörin hærri en flest fyrirtæki hafa áður vanist. Ekki er við því að búast að þessi staða taki breytingum á næstunni og á sama tíma horfum við upp á atvinnuvegafjárfestingu fara hríðfallandi.

Hvaðan á súrefnið til atvinnulífsins að koma? Ekki þýðir að horfa til lífeyrissjóða sem hafa hvorki getu né innviði til að koma að fjármögnun fyrirtækja í stórum stíl sem stendur. Stjórnvöld hljóta að spyrja sig hvað þau geta gert. Ein leið væri að fara að ráðum Mark Carney, fráfarandi bankastjóra Englandsbanka, sem sagði í viðtali við Financial Times í vikunni – spurður hvort seðlabankar heims ættu lítið eftir í vopnabúrinu til að bregðast við samdrætti – að beita mætti þjóðhagsvarúðartækjum til að styðja við peningastefnuna með því að lækka eiginfjárkröfur á banka og auka þannig útlánagetu þeirra. Á Íslandi hefur hins vegar verið farin þveröfug leið, byggt á haldlitlum rökstuðningi sem enginn skilur nema embættismenn fastir í sínum fílabeinsturni, og eiginfjáraukar á fjármálafyrirtæki hækkaðir enn meira í miðri niðursveiflu með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum á framboð lánsfjármagns.

Hér þarf að breyta um kúrs áður en staðan versnar frekar að óþörfu.