Hér verður vikið að tvennu sem varðar fag­vitund og starfs­menningu (fjöl)miðla­fólks, við­tölum og frétta­mati/efnis­vali. Jafn­framt eru nefndar um­bætur sem geta stuðlað að því að miðlar ræki lýð­ræðis­hlut­verk sitt betur en þeir gera nú.

Þegar frétta- og dag­skrár­gerðar­fólk tekur við­töl í miðlum sínum spyr það fyrir hönd okkar sem fylgjumst með efninu. Við viljum geta tekið sjálf­stæða af­stöðu til þess sem við­mælendurnir segja en það truflar okkur þegar spyrill í út­varpi eða sjón­varpi rit­skoðar í sí­fellu svör þeirra með orðum eins og já, nei, ein­mitt, ná­kvæm­lega, segðu, aha og svo fram­vegis. Þetta á meira að segja við margt af því fjöl­miðla­fólki sem tekur við­töl í helstu við­tals- og frétta­skýringar­þáttum ljós­vaka­miðlanna. Einnig eru svo­nefndar leiðandi spurningar al­gengar en þær eru þannig orðaðar að þær geta haft á­hrif á svar við­mælandans: Er þetta ekki ein­mitt dæmi um spillingu? Dugar svona lág upp­hæð til að koma þessu í verk?

Stundum hefur verið sagt í aug­lýsingum fjöl­miðla að þeir segi fréttir af at­burðum um leið og þeir eigi sér stað. En at­burðir verða ekki sjálf­krafa að fréttum; það er starfs­fólk miðlanna sem á­kveður frá hverju er sagt. Því er hæpið að segja að frétta­miðlar spegli veru­leikann eins og hann sé; nær lagi er að segja að þeir endur­spegli hann í sam­ræmi við þær hefðir, hug­myndir og gildi sem ráða frétta­matinu. Sjálf­sagt er að ganga úr skugga um sann­leiks­gildi ein­stakra frétta en jafn­miklu eða enn meira máli skiptir að huga að fréttum og öðru efni í víðara sam­hengi: Um hvaða mála­flokka er mest fjallað í miðlunum? Hvað er þar sjaldan eða aldrei til um­ræðu? Og hvers vegna?

Hvernig væri svo hægt að breyta miðlum til batnaðar? Fyrst skal nefna að allir ættu þeir að birta dag­skrár-, rit­stjórnar- eða frétta­stefnu sína þannig að lands­menn geti áttað sig á því hvað ráði helst efnis­vali þeirra og efnis­tökum. Þegar stjórn­völd á­kveða að styrkja miðla með fjár­fram­lögum, svo þeir geti stuðlað að virkara lýð­ræði, þarf að skýra hvað geti falist eða eigi að felast í því.
Svo þarf að bæta grunn­menntun og sí­menntun þeirra sem starfa við miðlun. Í starfs­þjálfunar­deild BBC í London stundar fólk með ýmiss konar menntun á­kveðið grunn­nám áður en það hefur störf og upp­færir þar svo reglu­lega þekkingu sína eða endur­skoðar vinnu­brögð sín. Hér má ekki á milli sjá hvort vegur þyngra, sjálfs­rýni starfs­manns eða á­bendingar þeirra starfs­þjálf­enda sem hafa kynnt sér verk­lag hans. Allir starfs­menn taka þátt í slíkri starfs­þróun og hvorki starfs­aldur þeirra né frami skipta máli. Hér á landi þarf að taka upp svipað fyrir­komu­lag enda yrði það til hags­bóta fyrir miðlana, miðla­­not­endurna og miðla­fólkið sjálft.

Loks má nefna nauð­syn þess að efla lýð­ræðið með því að tengja saman, til dæmis með net­sam­skiptum, þá sem búa til efni og þá sem það er ætlað. Ef not­endur finna að þeir geti haft á­hrif á efnis­val og um­ræðu í miðli, ef þeir sann­færast um að hann starfi í þeirra þágu, verður hann þeirra miðill, miðillinn sem þeir treysta og vilja festa í sessi. Mikil­vægt skref í þessa átt væri að full­trúar al­mennings sætu í stjórn eða ráðum allra miðla, ekki að­eins þeir sem eig­endum þeirra eða stjór­mála­fólki eru þóknan­legir.

Höfundur er fyrrverandi lektor í miðlalæsi við Háskóla Íslands.