Oft og einatt hafa Vesturlandabúar gónt á nafla síns heima – og haldið fram þeirri kenningu að ekkert rúmist þar utan sem ekki megi ýmist ræna, rufla, ellegar tala niður til.

Ekki einasta hafi Mekku siðmenningarinnar ávallt verið að finna í Gamla heiminum, sem svo hefur verið nefndur af dreissugu dramb­læti, heldur séu helstu vísindaafrek og framfaraskref mannkyns bundin við þann eina stað.

En allt er í heiminum hverfult – og nú er svo komið að öflug hagkerfi utan þessarar meintu viskumiðju eru að taka fram úr Evrópulöndum í efnahagslegum styrk og kaupgetu.

Ástæðan er einfaldlega sú að hvergi fjölgar meira og hraðar í aflögufærri millistétt en einmitt í fjölmennustu löndum Asíu og Suður-Ameríku, á sama tíma og hægir mjög á náttúrulegri fjölgun heimamanna í Evrópu, en álfan sú arna getur ekki bætt sér það upp nema með innflutningi vinnuafls frá fjarlægum löndum.

Það er í þessu ljósi sem einkar athyglisvert er að fylgjast með evrópskum vísindarannsóknum á lýðfræðilegum breytingum næstu áratuga, en þær sýna öðru fremur hvar neytendakrafturinn verður helst leystur úr læðingi fram eftir nýrri öld.

Einu löndin sem færa sig upp þann lista á næstu þrjátíu árum, fyrir utan Kína sem situr í toppsætinu eftir sem áður – og eykur bara forystu sína, eru Indland, Indónesía, Brasilía og Mexíkó, en síðastnefnda ríkið hefur raunar aldrei áður ratað í fyrstu tíu sæti listans yfir þær þjóðir sem státa af mestri kaupgetu.

Þau lönd sem helst munu gefa eftir á listanum fram til 2050 eru Bandaríkin, sem fellur úr öðru sæti í það þriðja, og hleypir Indlandi upp fyrir sig, en hæsta fallið er hjá Japan og Þýskalandi. Það fyrrnefnda fer úr fjórða sæti í það áttunda. Það síðarnefnda úr fimmta sæti í það níunda.

Í báðum þessum löndum hefur hægt svo mjög á fólksfjölgun að til trafala horfir. Þar er hin breiða millistétt að láta undan.

Frakkland, sem var í tíunda sæti, fellur út af listanum, og Bretland tekur það sæti eftir að hafa sigið um eitt á þessum tíma.

Það verður því svo komið innan þrjátíu ára að einungis tvö Evrópulönd verða á lista yfir tíu sterkustu markaðssvæði jarðarinnar hvað neyslukraftinn varðar – og þessi tvö lönd, Þýskaland og Bretland, reka lestina á honum.

Að þessu leyti er gamla álfan að gefa eftir, hvað svo sem segja má um lýðræðisþróttinn sem þar er að finna, að ekki sé talað um samstöðuna, svo og óbilandi trú á mannréttindi.