Í bernsku minni voru kvöldfréttir Ríkisútvarpsins heilög stund. Fréttastef Atla Heimis ómaði um eldhúsið. Rokið var til og hækkað í tækinu. Kvöldmatur á borði. Sussað. Fréttaþulur hóf upp raust sína. „Afli línubáta hefur verið með versta móti það sem af er vetri. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti veikan sjóliða á tíunda tímanum í morgun. Íslenska handboltalandsliðið stóð ekki undir væntingum. Von er á djúpri lægð og ört vaxandi suðvestanátt.“
Að þessu loknu var kveikt á kvöldfréttatímum sjónvarpsstöðvanna. Á einum og hálfum tíma var nokkurn veginn sama fréttaþula dagsins endurtekin, þar til nokkuð örugglega mátti fullyrða að það sem gerðist hefði ábyggilega ekki farið fram hjá neinum í heimilishaldinu. Og dag hvern duttu fjögur til fimm blöð inn um bréfalúguna, með mismunandi sjónarhólum á þær hinar sömu fréttir. Stundum þó með æsandi skúbbum.
Nú er öldin önnur.
Á einhverjum tímapunkti í lífi mínu, þegar ég var kominn til vits og ára og farinn að hafa sjálfstæð og afgerandi áhrif á stillingu viðtækja í mínu nærumhverfi – sem er mikilvægur áfangi í lífi hverrar manneskju – gerði ég uppgötvun. Áhrif hinna afmörkuðu línulegu fréttatíma á sálarlífið voru of ískyggileg. Í hvert skipti sem ég hlustaði á fréttatíma, þyrmdi yfir mig. Pirringur óx og kippir urðu í andliti. Orka þvarr. Lund dofnaði. Ég gat ekki lengur fengið það svona beint framan í mig í einum pakka hvað hefði farið úrskeiðis þann daginn í heiminum og hverjir hefðu gert upp á bak. En það er jú meginuppistaða frétta.
Eftir sem áður – hafandi jú hafið störf sem blaðamaður á dagblaði undir styrkri stjórn Indriða G. Þorsteinssonar á unglingsárum – gat ég ekki annað en skilgreint mig sem fréttafíkil. Þörf mín fyrir fréttir fór hins vegar smám saman að leita í aðra farvegi, líkt og þörf veraldarinnar allrar. Vefsíður hófu göngu sína. Hægt er að vera betur upplýstur um dagleg tíðindi en nokkurn tímann áður, með mun minni fyrirhöfn og án þess að öllum skakkaföllum mannkynsins sé sturtað yfir mann í einu. Maður guðar á stafræna fréttagluggann eftir þörf og hlaðvörp óma í eyrum mínum í sívaxandi mæli. Alls konar fréttaskýringar og hressandi viðtöl eru nú hluti af daglegri fréttaneyslu minni, með mun betri áhrifum á hugarþelið. Ég stjórna flæðinu.
Sá miðill sem fyrstur kemst almennilega í símana, með vönduðu smáforriti sem býður upp á fréttir andartaksins, skoðanir, skýringar og umfjallanir með tilheyrandi upplýsinga- og skemmtanagildi, hann vinnur.
Löngunin til að lesa fréttir á prenti hefur að sama skapi minnkað. Mér hefur smám saman opinberast – í þessari veröld þar sem aðgengi að fréttum er í raun alltumlykjandi – hversu fáránlegt það er að höggva tré einhvers staðar, búa til pappír, prenta á það myndir og stafi og láta svo næturhrafna keyra hið áprentaða blað heim til mín svo ég geti lesið það – eða ekki – og fyllt bláu tunnuna með því.
Úti í heimi eru fjölmiðlar gjörbreyttir. Bandaríski fréttamiðillinn New York Times hefur augljóslega uppgötvað að engu máli skiptir lengur að bera fréttir í hús. Bera þarf fréttir í síma. Símarnir eru nýju lúgurnar. Í símum sínum opnar fólk, þar á meðal ég, á hverjum degi glæsilegt smáforrit New York Times, þar sem urmull af vönduðum fréttum, fréttaskýringum og hugvekjandi skoðanapistlum bíður, til að lesa yfir kaffibollanum. Fjölmiðlar sem ætla sér að keppa í úrvalsdeild eru ekki lengur blöð, útvarpsstöð eða sjónvarpsstöð. Þeir eru forrit. Útvarpsþættir eru hlaðvörp í eyra. Sjónvarpsstöðvar eru app í boxi.
Markmið New York Times er að vera ómissandi fréttamiðill fyrir allan hinn enskumælandi heim. Ísland er þar á meðal. Yfir 120 milljón manns um víða veröld njóta miðilsins mánaðarlega stafrænt. Prentuðu eintökin af blaðinu eru að fjara út. Þau eru innan við 4 prósent af stafrænu áskriftunum.
Breytingar rata alltaf seint til Íslands. Pönkið var um það bil þrjú ár að berast. Hér var fólk með hanakamb þegar restin af veröldinni var komin með herðapúða. Annað er eftir því. Íslenskir fjölmiðlar eru furðulega hikandi. Árið virðist enn 2005. Vefsíður eru nokkurn veginn eins og þá. Veðjað er á fréttabréf í tölvupósti. PDF-skjöl eru látin nægja sem stafrænar birtingarmyndir prentmiðla. Á þessu stafræna, netvædda landi virðast fjölmiðlar fastir í gömlum hjólförum. Vakning er í hlaðvörpum, en að öðru leyti er lítið að ske. Ég spái hinu augljósa: Sá miðill sem fyrstur kemst almennilega í símana, með vönduðu smáforriti sem býður upp á fréttir andartaksins, skoðanir, skýringar og umfjallanir með tilheyrandi upplýsinga- og skemmtanagildi, hann vinnur.
Megi kapphlaupið úr húsunum í símana hefjast sem fyrst, því málið er jú smá áríðandi: Íslenskir fjölmiðlar verða að hysja upp um sig brækurnar. Annars verða ekki sagðar neinar fréttar í framtíðinni af afla línubáta, þyrlu Landhelgisgæslunnar, vonbrigðum handboltalandsliðsins eða lægðardrögum með vaxandi suðvestanátt, og þaðan af síður á íslensku.