Eitt það athyglisverðasta við úrslit nýliðinna sveitarstjórnarkosninga er að Framsóknarflokkurinn líður langtum síður fyrir landsmálin en samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn.

Fyrir utan Mosfellsbæ, þar sem Framsókn fór með himinskautum, á þetta á einkum við um Reykjavík, en þar er tveimur síðarnefndu flokkunum augljóslega refsað fyrir Íslandsbankasöluna sem þjóðinni ofbauð, Sjálfstæðisflokknum fyrir að selja bankann góðkunningjum á afslætti – og raunar upphaflega með fyrirhugaðri nafnleynd, en Vinstri grænum fyrir að verja Sjálfstæðisflokkinn í öllu atinu.

Á milli þessa hægriflokks og vinstrihreyfingar stendur Framsóknarflokkurinn staffírugur sem helsti sigurvegari kosninganna og má raunar vel við una um land allt, enda virðist almenningur frekar tilbúinn að fyrirgefa foringja hans fyrir óheppilegt orðbragð en hinum flokksformönnunum tveimur fyrir að fara illa með eigur almennings í bankakerfinu.

En líklega er myndin flóknari, því þótt bankar hafi oftar valdið fjaðrafoki í íslenskri þjóðmála­umræðu, svo jaðrar við byltingu, eru fleiri augljósar breytur í pólitíkinni hér á landi.

Kemur þar líklega þrennt til. Í fyrsta lagi gjalda borgarstjórnarflokkar síðasta kjörtímabils fyrir pólitísk leiðindi og innantóma háreysti þar sem upphrópanir eyðilögðu fyrir almennilegum vinnufriði. Fyrir vikið hrundi virðing almennings fyrir borgarstjórn.

Í annan stað eiga landsmenn að baki tveggja ára farsóttartíma þar sem þeim var öðru fremur kennt að hlýða vísindalegu viti fremur en póli­tískum tækifærissinnum, sem kunna á stundum lítið fyrir sér annað en að slá keilur með útúrsnúningum. Og hafi pestin ekki lækkað rostann í pólitíkinni fá Evrópuþjóðir á borð við Íslendinga ömurlegt stríð ofan í alla þessa fyrri óáran.

Allt kallar þetta á mildari pólitík. Líklega má kalla það hófsama miðju. Og það er af því að alþýðan er orðin langþreytt á sjálfvitraknúinni öfgapólitík sem telur sig handhafa sannleikans.

En þá er bara spurningin hvert hin milda Framsókn ætlar sér. Hún þarf öðru fremur að sýna að hún geti unnið í báðar áttir pólitíkurinnar. Og hafandi það í huga að Framsókn fer líklega bæði með Íhaldinu í Kópavogi og Hafnarfirði er líklega ekki góður bragur á því að hún geri það líka í Reykjavík, öllum þremur stærstu bæjum landsins, ofan í landsstjórnina.

Þá þarf Framsókn að vinna með Pírötum. Það gæti hæglega gengið vel. Og breytt landsmálunum, jafnvel til frambúðar.