Nú hefur forsætisráðuneytið lagt fram þrjár tillögur varðandi staðarklukkuna á Íslandi og hvort eigi að breyta henni í takt við hnattræna stöðu landsins líkt og vísindamenn hafa í áraraðir lagt til.

Hér ætla ég að fara yfir þessar þrjár leiðir sem lagðar eru fram og rekja mína skoðun á þeim. Skoðun mín byggir á þeirri reynslu og þekkingu sem ég hef öðlast í starfi mínu sem sérfræðingur í svefnrannsóknum.

1. Óbreytt staða, klukkan er áfram 1 klst. fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu, en með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.

Það er algjörlega ljóst að það þarf að stórefla fræðslu um mikilvægi svefns fyrir almenna líðan og heilsu. Fræðsla um svefn ætti að sjálfsögðu að vera hluti af námsskrá alveg frá leikskólaaldri fram á háskólastig. Við verjum þriðjungi ævinnar í að sofa og svefn er ein allra mikilvægasta grunnstoð góðrar heilsu og skortur á svefni eykur líkur á ýmsum sjúkdómum, bæði andlegum og líkamlegum og skerðir lífsgæði til muna. Í ljósi þessa er óskiljanlegt hversu lítil áhersla er lögð á fræðslu um svefn í skólakerfinu á Íslandi.

2. Klukkunni seinkað um 1 klst. frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins

Þessi liður er hiklaust sá sem við ættum að ráðast strax í. Við núverandi ástand ríkir misræmi milli líkamsklukku Íslendinga og staðartíma hér á landi og niðurstöður vísindarannsókna hafa leitt í ljós neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar þessa. Of fljót staðarklukka hefur í för með sér seinkun sólarupprásar sem er líkleg til að skekkja líkamsklukkuna og seinka henni. Morgunbirtan er mikilvægasti þátturinn til að stilla líkamsklukkuna en fjöldi rannsókna hefur sýnt að Íslendingar fara seinna að sofa en aðrir Evrópubúar sem styður þá ályktun að þorri landsmanna sé með seinkaða líkamsklukku. Háttatími okkar er því seinni en þekkist annars staðar en dagurinn byrjar á sama tíma á virkum dögum vegna vinnu eða skóla svo óhjákvæmilega veldur þetta styttingu nætursvefns. Íslenskir unglingar sofa til að mynda alltof stutt og mun styttra en unglingar í öðrum nágrannaþjóðum okkar. Vitað er að stuttur svefn eykur líkur á ýmsum sjúkdómum, s.s. offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum, skerðir framleiðni og hefur neikvæð áhrif á námsárangur og andlega líðan.

Þessi aðgerð er einföld. Verið er að tala um eina breytingu sem gæti haft verulegan lýðheilsulegan ávinning. Svefnvandamál eru gríðarlega algeng og hafa neikvæðar afleiðingar í för með sér og kosta samfélagið einnig mikla fjármuni ár hvert.

3. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefja starfsemi seinna á morgnana.

Úr þessum kosti mætti skoða þann lið að fyrirtæki í landinu veiti meiri sveigjanleika varðandi upphaf vinnudags og að skólar (sérstaklega á unglingastigi) hefji daginn seinna. Niðurstöður íslenskra rannsókna hafa sýnt að 15 ára unglingar sofa einungis rúmlega sex klukkustundir að meðaltali á virkum dögum (þurfa að sofa í 8-10 klst.) og að svefntími þeirra styttist að meðaltali um nærri hálfa klukkustund milli 15 og 17 ára aldurs. Áhugavert var að sjá í þessu ljósi að framhaldsskólanemar í fjölbrautakerfi sofa að jafnaði lengur en nemendur í bekkjarkerfi sem ýtir undir þau rök að aukinn sveigjanleiki og seinkun á upphafi skóladags hafi jákvæð áhrif á nætursvefn. Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt mjög góðan ávinning af því að seinka upphafi skóladags hjá unglingum. Nætursvefn raunverulega lengist og breytingin hefur jákvæð áhrif á mætingu, líðan og námsárangur.

Niðurstaða mín er því sú að það sem muni skila mestum ávinningi fyrir lýðheilsu Íslendinga sé eftirfarandi:

1.Klukkunni seinkað um 1 klst. frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins.

2.Stórauka fræðslu um svefn og gera hana að hluta af námskrá á öllum námsstigum.

3.Seinka upphafi skóladags hjá unglingum og að fyrirtæki veiti meiri sveigjanleika með upphaf vinnutíma þar sem það er mögulegt.