Um helgina komu rúmlega fimmtíu kúbverskir læknar og hjúkrunarfræðingar til Lombardí-héraðs á Ítalíu sem hefur orðið hvað verst úti í COVID-19 faraldrinum. Þar munu þeir aðstoða heimamenn í baráttunni við hina illvígu kórónaveiru sem þegar hefur kostað rúmlega sex þúsund mannslíf í landinu.

Fréttir eins og þessi heyrast því miður sjaldan þessa dagana þegar viðbrögð flestra ríkja hafa verið að hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni. Raunar er það engin nýlunda að Kúba sendi heilbrigðisstarfsfólk sitt um heiminn þegar á þarf að halda. Allt frá byltingunni 1959 hefur landið aðstoðað fátækari ríki heims með þessum hætti. Heilbrigðisstarfsfólk frá Kúbu hefur nú líka verið sent til Venesúela, Níkaragva, Jamaíka, Súrínam og Grenada vegna útbreiðslu COVID-19.

Heimsmynd okkar hefur svo sannarlega breyst mikið undanfarnar vikur og sér enn ekki fyrir endann á því. Sjálfsagðir hlutir eins og ferðafrelsi og landamærasamstarf hafa þurft að víkja tímabundið vegna ástandsins. Draumur Johns Lennon um heim án landamæra virðist órafjarri.

Ljóst er að áhrifin verða einnig gríðarleg á heimshagkerfið og alþjóðaviðskipti. Á tímum popúlisma og þjóðarleiðtoga sem ala á ótta og sundrungu höfum við enga vissu fyrir því að sá heimur sem blasir við okkur þegar þetta allt verður yfirstaðið verði sá sem við áður þekktum.

Mikilvægi alþjóðasamvinnu er aldrei meira en á krísutímum. Ekkert ríki getur eitt og sér leyst úr öllum áskorununum sem fylgja þessu ástandi. Nú reynir á lykilstofnanir alþjóðasamfélagsins að stuðla að því að tekist verði á við faraldurinn og eftirköst hans á eins samræmdan og skynsamlegan hátt og mögulegt er.

Þegar horft er upp á hvernig veiran hefur nú þegar leikið þróuð samfélög og innviði þeirra er varla hægt að hugsa til enda hvernig vanþróaðri ríkjum heims mun farnast. Svæði sem hafa þurft að þola stríðsátök og þær skelfingar sem þeim fylgja eru sérstaklega viðkvæm. Vonandi verður tekið vel í hvatningu António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um alheimsvopnahlé sem hann flutti í ávarpi í gær. „Veiran kærir sig kollótta um þjóðerni, kynþátt, flokk eða trú. Hún ræðst án afláts jafnt á alla,“ sagði Guterres sem benti á að þeir sem síst skyldi verði harðast úti.

Líkt og í efnahagskrísunni 2008 hefur COVID-19 minnt okkur á hve samtvinnað en jafnframt viðkvæmt alþjóðakerfi við búum við. Tíminn einn mun leiða í ljós hver áhrifin verða bæði til skemmri og lengri tíma og hvaða lærdóma við munum draga af þessu.