Sé einhverju að treysta í tilverunni er það breytingar. Dagurinn í dag verður annar en sá sem var í gær og hverjum degi fylgja nýjar áskoranir. Það sem áður var er ekki meir þó grundvallarþættirnir kunni að vera áþekkir.

Sumum lætur illa að fást við breytingar og telja að í þeim felist ógn. Öðrum líður best í tilveru sífelldra breytinga og álíta að í þeim felist tækifæri.

Okkur sem lifum um þessar mundir finnst eins og aldrei fyrr í sögunni hafi breytingar verið stórtækari og örari. Ekki er víst að það standist nánari skoðun.

Leiða má að því rök að þeir sem fæddust á fyrri hluta síðustu aldar hafi gengið í gegnum meiri breytingar en nokkrar aðrar kynslóðir Íslendinga. Á þeirra tíð hefur bylting orðið í samgöngum, fjarskiptum, hýbýlum, aðgengi að upplýsingum og svo mætti lengi telja.

Á þeirra tíð hefur byggð í landinu gerbreyst úr því að vera dreifbýlt land – til þess að Ísland er, að heita má, orðið borgríki. Á vef Hagstofunnar má sjá samantekt um búsetu fólks hér á landi. Þar sést að aðeins tíundi hver maður býr í sveitarfélögum með færri en 1.000 íbúa og sex prósent landsmanna búa í strjálbýli. Landsmenn voru ríflega 371 þúsund við lok annars ársfjórðungs á þessu ári. Af þeim bjuggu rúmlega 238 þúsund á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúar í strjálbýli og byggðarkjörnum sem töldu færri en 50 íbúa voru rúmlega 32 þúsund um miðja síðustu öld. Þá bjuggu í landinu rúmlega 144 þúsund manns.

Það hafa því orðið stórfelldar breytingar á búsetu í landinu á þessum rúmlega 70 árum.

Afleiðingar þessa sjást vel á ferðum um landið. Víða má sjá yfirgefnar bújarðir, sumar nýttar til heyskapar og beitar, aðrar ekki. Enn sjást þó glæsileg stórbýli með góðum tækjakosti. Það eru helst örreytiskotin sem hafa verið yfirgefin og komin eru í eyði.

Þessi breyting á búsetu fólks hefur ekki stöðvast. Áfram mun fækka í strjálbýli, áfram mun ungt fólk sækja í þéttbýlið til að mennta sig eða leita tækifæra. Kostnaðarsamar samgöngubætur munu ekki breyta þeirri þróun að neinu marki, þó þær geri ef til vill sitt til að hægja á flótta íbúa úr sveitum landsins.

Ísland er gjöfult land þó harðbýlt sé og náttúrufegurðin óviðjafnanleg. Koma milljóna erlendra ferðamanna árlega er til vitnis um það, þó tímabundið straumrof hafi orðið í þeim efnum. Víða má um landið sjá stórkostlega uppbyggingu gistiþjónustu og umgerðar um náttúruperlur og veitingarekstur sem styður að allir hlutar landsins haldist í byggð.

En það gerir annars konar uppbygging líka. Austur á Héraði og í fjörðunum í kring er blómleg byggð. Hvað sem segja má um bein og óbein umhverfisáhrif frá álverinu í Reyðarfirði hefur það átt sinn þátt í hversu vel hefur tekist að varna brottflutningi fólks. Sömu sögu er að segja um Siglufjörð og þá fjölbreytni í atvinnulífi og uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað undanfara áratugi.

Verkefni okkar sem þetta land byggjum er ekki að hindra breytingar heldur reyna að tryggja að þær verði til góðs.