Fyrir liggur frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögreglulögum, sem snýr einkum að því að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna þegar mál tengjast hryðjuverkaógn eða skipulagðri brotastarfsemi og styrkja eftirlit með starfsemi lögreglu. Skipulögð brotastarfsemi og hryðjuverkaógn kallar á mun nánari samvinnu og samstarf lögreglu milli landa með tilheyrandi miðlun upplýsinga og annarra ráðstafana. Slík starfsemi er alþjóðleg og virðir hvorki landamæri né lögsagnarumdæmi. Frumvarpið er nauðsynlegt svo hægt sé að gæta öryggis borgaranna og spyrna við fæti gagnvart sívaxandi ógn af þessari brotastarfsemi. Mikilvægt í þeirri viðleitni er samvinna við erlend lögregluyfirvöld og miðlun upplýsinga en gildandi lög gerir það þyngra og erfiðara.

Viljandi eða vegna misskilnings hefur umræða um frumvarpið, bæði hjá stjórnmálamönnum og fjölmiðlum, ekki verið um það sem í því er heldur það sem ekki er þar að finna. Látið er í veðri vaka og jafnvel fullyrt að með frumvarpinu, verði það að lögum, sé lögreglu heimilt að hafa eftirlit með hverjum sem er og hlera og hlusta að vild. Þar sem umræðan hefur verið afvegaleidd tel ég nauðsynlegt að upplýsa almenning um helstu atriði frumvarpsins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérstök lögreglurannsóknar- og greiningardeild fari með hlutverk þegar kemur að fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir brot gegn öryggi ríkisins. Þá er verið að afmarka og skýra heimildir lögreglu til eftirlits á almannafæri sem er þáttur í almennu afbrotavarnahlutverki hennar og eftirlit með einstaklingum sem grunur er að hafi tengsl við skipulögð brotasamtök og síðan eftirlit með einstaklingum sem lögregla hefur upplýsingar um að af stafi sérgreind hætta fyrir öryggi ríkisins eða almennings. Auknar heimildir lögreglu í frumvarpinu snúa því eingöngu að eftirliti með einstaklingum sem grunur er um að hafi tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða sem lögregla hefur upplýsingar um að af kunni að stafa sérgreind hætta fyrir öryggi ríkisins eða almennings (hryðjuverkaógn).

Í eftirliti lögreglu felst að afla upplýsinga, þar á meðal persónuupplýsinga, hjá öðrum stjórnvöldum, stofnunum og opinberum hlutafélögum ef upplýsingar eru nauðsynlegar og til þess fallnar að hafa verulega þýðingu fyrir starfsemi hennar í tengslum við að rannsaka eða afstýra brotum gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga. Þá verður lögreglu heimilt að nýta greiningar og allar upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru fyrir almenningi. Auk þess að afla upplýsinga um viðkomandi á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Slíkar ákvarðanir verða aðeins teknar af lögreglustjórum eða öðrum yfirmanni samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Eftirlit skal ekki haft lengur en nauðsynlegt er og leiði eftirlit til gruns um afbrot skal rannsókn fara fram eftir lögum um meðferð sakamála. Rétt er að undirstrika að heimildir lögreglu til hlerana eða annarra þvingunarúrræða er ekki útvíkkaðar í frumvarpinu.

Þegar rætt er um auknar heimildir í þágu afbrotavarna togast á tvö mikilvæg sjónarmið, annars vegar nauðsyn þess að lögregla geti rækt starf sitt með fullnægjandi hætti og hins vegar grundvallar mannréttindi eins og persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Nú er engum blöðum um það að fletta að ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi og hryðjuverka er alvarleg og meiri en áður. Hér eru því augljósir almannahagsmunir fyrir þessum heimildum lögreglu til eftirlits. Skerðing á friðhelgi einkalífs er mjög lítil enda gert ráð fyrir að eftirlit með einstaklingum verði ekki nema grunur eða upplýsingar eru um að viðkomandi tengist skipulagðri brotastarfsemi eða sérgreind hætta fyrir öryggi ríkisins eða almennings kunni að stafa af honum.

Auknum heimildum verður að fylgja aukin ábyrgð og eftirlit með störfum lögreglu. Því er gert ráð fyrir í frumvarpinu að styrkja eftirlit með störfum lögreglu, skerpt á ábyrgð og eftirfylgni innan lögreglu og gagnvart ríkissaksóknara. Í frumvarpinu er tilkynningarskylda um aðgerðir lögreglu til eftirlitsnefndar lögreglu þegar eftirliti er hætt og nefndin efld og valdsvið hennar víkkað. Það er eðlilegt og rökrétt þegar lögreglu er veittar auknar heimildir til eftirlits með einstaklingum.