Öldungadeildarþingmaðurinn James Lankford stóð hnarreistur í þinghúsinu í Washington síðastliðinn miðvikudag við upphaf ræðu þar sem hann hugðist krefjast þess að úrslitum forsetakosninganna yrði hnekkt. Hann hafði ekki fyrr hafið upp raust sína en aðstoðarmaður stöðvaði hann og hvíslaði: „Mótmælendur eru komnir inn í bygginguna.“ Lankford, heitur stuðningsmaður Trumps og samsæriskenninga hans um kosningasvik, virtist brugðið við fréttir af innrás skoðanasystkina sinna. „Takk fyrir,“ sagði hann skelkaður og bjóst til að flýja þingsalinn.

Það sem ekki er til

Fyrir um 70.000 árum varð stökkbreyting í heila mannsins. Í kjölfarið tóku tungumálahæfileikar tegundarinnar óvæntum framförum. Í stað þess að tjá sig aðeins um það sem við blasti í raunheimum – tré, steina, vatnsból og ljón sem lágu í leyni – fór maðurinn að geta tjáð sig um hluti sem ekki voru til í alvörunni. Hann fór að spinna upp sögur.

Í metsölubók sinni Sapiens – mannkynssaga í stuttu máli leiðir ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari að því líkur að hæfileiki mannsins til uppspuna liggi yfirburðum hans til grundvallar. Harari segir þennan eiginleika valda því að maðurinn geti unnið í stærri hópum en nokkur önnur dýrategund. Þúsundir, jafnvel milljónir einstaklinga, geti sameinast um sögu og unnið að sameiginlegu markmiði í krafti hennar. Sem dæmi um sögur, hluti sem ekki séu til í alvörunni heldur fyrirfinnist aðeins í sameiginlegum hugarheimi mannsins, nefnir Harari þjóðríki, lög, guð, peninga og lýðræði.

En hvernig fær maður fólk til að trúa á eitthvað sem er ekki til? Regla númer eitt samkvæmt Harari er að viðurkenna aldrei að um uppspuna sé að ræða.

Blind trú

Í vikunni ruddust stuðningsmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta inn í Bandaríkjaþing. Kölluðu margir uppátækið tilraun til valdaráns. Árásin var gerð að áeggjan forsetans sjálfs, en vikum saman hefur hann haldið fram tilhæfulausum staðhæfingum um að kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember síðastliðnum. Fáir innan Repúblikanaflokksins fordæmdu lygilegar ásakanir Trumps opinberlega. Margir sáu þvert á móti hag sínum borgið að fylkja sér að baki forsetanum og éta þær upp eftir honum. Það virtist ekki skipta menn máli þótt þeir væru röngum megin sögunnar, svo lengi sem þeir sjálfir komust á spjöld hennar.

En lygar hafa afleiðingar. Það er ekki hægt að pönkast endalaust í lýðræðinu og ætlast til að það haldi.

Síðastliðinn miðvikudag tóku loks að renna tvær grímur á Repúblikana. Eftir fólskulega árás á hjarta lýðræðisins hætti fyrrnefndur James Lankford við að mótmæla kjöri Joes Biden í embætti forseta, eins og hann hafði ætlað sér. Starfslið Trumps í Hvíta húsinu segir nú upp störfum í hrönnum. Repúblikanar keppast loks við að afneita Trump. Þykir mörgum seint í rassinn gripið. Þarna fari brennivargar klæddir sem slökkviliðið.

Lýðræðið er saga, hugarburður mannsins. Það er hins vegar rangt hjá Yuval Noah Harari að til að viðhalda því þurfum við að fela þá staðreynd. Þvert á móti stafar lýðræðinu ekki meiri ógn af neinu en einmitt blindri trú á tilvist þess. Ekkert er lýðræðinu hættulegra en þegar við förum að halda að það sé náttúrulögmál, óhagganleg staðreynd. Lýðræðinu er ógnað þegar við gleymum því að það er skáldskapur, samningur manna á milli sem þarf að heiðra svo að hann haldist í gildi. Um leið og við hættum að virða leikreglur lýðræðisins fuðrar það upp.