Óhætt er að segja, að COVID19 liggi eins og mara á þjóðinni. Heilu atvinnugreinarnar hafa nær þurrkast út og ríkisreksturinn stefnir í fordæmalausa skuldsetningu. Það er því mikið fagnaðarefni að bóluefni sé komið til landsins og gengur í augum marga kraftaverki næst hversu vel þróun efnisins virðist hafa gengið.

Almannahagsmunir

Enn er þó langt í land. Barátta þjóða á milli um bóluefni virðist standa sem hæst og óvíst er hvenær hjarðónæmi verður náð. Vonandi verður það síðar á þessu ári eða í síðasta lagi í byrjun þess næsta. Þegar þeim langþráða áfanga verður náð tekur við krefjandi uppbyggingar- og endurreisnarstarf. Hvernig okkur ferst það starf úr hendi, verður að einhverju leyti háð þeim afleiðingum sem COVID19 mun hafa á samfélag og efnahag til lengri tíma litið, jafnt hér á landi sem erlendis. Það eina sem við getum gengið út frá sem nokkuð vísu er, að hinn nýi veruleiki eftir COVID19 mun fela í sér bæði ný sóknarfæri og nýjar ógnanir.

Með hliðsjón af þessum fordæmalausu tímum, hlýtur mikilvægasta áherslan hjá aðilum vinnumarkaðarins að vera stöðugleiki. Sú óþarfa spenna sem gerði vart við sig í samskiptum þeirra fyrr í vetur vekur því spurningar. Má vera, að tortryggni, upphrópanir og 19. aldar Marxismi sé málið? Hljótum við ekki, að gera þær kröfur til forystumanna vinnumarkaðarins að þau takist af yfirvegun á við vandann með hagsmuni almennings að leiðarljósi?

Breiðu bökin

Eitt helsta einkenni veirufaraldra er, að sumir sleppa betur en aðrir. COVID19 fer ekki í manngreinarálit og eins og alþjóð veit, þá er það eina sem við getum gert að draga úr líkum á smiti þar til hjarðónæmi verður náð. Þessar aðgerðir hafa haft geigvænlegar afleiðingar á afmörkuðum sviðum atvinnulífsins, en þó fyrst og fremst á láglaunafólk og konur, ef marka má viðbrögð samtaka launafólks.

Heldur lítið hefur farið fyrir umræðunni um afkomu annarra tekjuhópa - sem er áhyggjuefni. Millitekjufólk eða „breiðu bökin“ eins og þessi meginþorri vinnumarkaðsins er gjarnan nefndur, myndar eina af helstu undirstöðum samfélagsins. Einhverra hluta vegna virðist umræða um stöðu og horfur þessara hópa þó ekki eiga upp á pallborðið, svo vel sé. Er vandinn kannski sá að við erum orðin svo vön að miða allt út frá þeim lægst launuðu að við kunnum ekki aðrar leiðir?

Það má svo e.t.v. teljast kaldhæðnislegt, að þeim mun verr sem breiðu bökin standa, þeim mun veikari getur staða þeirra lægst launuðu orðið, með þeim afleiðingum að launabil breikkar og misskipting fer vaxandi.

Að því gefnu, að aukin misskipting sé ekki á meðal þeirra sviðsmynda sem við viljum glíma við að kófinu loknu, gæti reynst heillaspor að breikka hina hefðbundnu kjaraumræðu og beina sjónum að stöðu fleirri tekjuhópa á vinnumarkaði en þeirra lægst launuðu.

Breikkum umræðuna

Við þyrftum með öðrum orðum að gefa gömlu láglaunapóstulunum frí um stund og huga þess í stað að stöðu bæði þeirra láglauna- og millitekjuhópa sem standa höllum fæti. Hafi hrunið átt að kenna okkur eitthvað, þá er það að kreppa er ekki rétti tíminn fyrir sérhagsmunagæslu og tækifærismennsku. Nú ríður á að aðilar vinnumarkaðarins vinni saman með hagsmuni alls almennings að leiðarljósi.