Kæra Þórdís Lóa. Þú skrifar á ný um fjármál Reykjavíkurborgar og lýsir þig reiðubúna til að veita öðrum ráð um ábyrga fjármálastjórn. Ekki veit ég um neinn sem hefur þegið boðið. Viðreisn skrifaði undir sáttmála eftir síðustu kosningar þar sem því var heitið að „greiða niður skuldir“. Ekki hefur það tekist betur en svo að skuldir samstæðu borgarinnar hafa hækkað um heila 24 milljarða frá síðustu áramótum. Þessar skuldir eru ekki skáldaðar heldur raunverulegar.

Landsþekkt er meðferð borgarinnar á fjármunum og koma mörg önnur hugtök upp í hugann en „ábyrg fjármálastjórn“ þegar við rifjum upp braggann fyrir hálfan milljarð, miðlæga stjórnsýslu upp á fimm milljarða á ári eða nýlegt dæmi um fundarkostnað í borgarstjórn. Það síðastnefnda þurfti eitthvað að endurskoða þar sem tölurnar stemmdu illa.

Forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Viðreisnar spurði kerfið um matarkostnað og gleypti tölurnar umhugsunarlítið. Eins og þú kannski manst átti fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 ekki að kosta krónu. Reyndin er sú að hún hefur þegar kostað hundruð milljóna þegar allt er samantekið; launakostnaður, aðstaða og rekstrarútgjöld. Birtir voru útreikningar fyrir síðustu kosningar um að þessi fjölgun myndi ekki kosta borgina neitt. Kannski átti ekki að taka þessa útreikninga alvarlega?

Mér finnst þú gera lítið úr fimm ára áætlun meirihlutans fyrir árin 2018-2022 sem lá fyrir fyrir kosningar og segir skuldahækkanir „ekki í neinum tengslum við raunveruleikann“. Staðreyndin er að lögbundna fimm ára fjárhagsáætlunin sem lá fyrir fyrir kosningar gerði ráð fyrir skuldalækkun.

Eftir að Viðreisn kom til liðs við vinstri meirihlutann hefur skuldaaukningin vaxið og er nú gert ráð fyrir 64 milljörðum meiri skuldsetningu borgarinnar í lok kjörtímabilsins en kynnt var fyrir kosningar. Þetta er allt skjalfest og birt af ykkur sjálfum á reykjavik.is og því aðgengilegt þeim sem vilja kynna sér málið. Og svo talar þú um aðhald í rekstri. Sextán prósent hærri rekstrarkostnaður borgarinnar á 2 árum er ekki aðhald. Hærri gjöld borgarinnar eru líka óhófleg og leggjast þungt á rekstraraðila og heimili. Það er staðreynd. Ég er með eitt einfalt ráð til þín, Lóa: Það er að horfast í augu við staðreyndirnar. Þetta er hollráð sem mun reynast þér vel.