Komdu sæl, frú biskup, Agnes Sigurðar­dóttir. Hér sit ég heima hjá mér og hugsa! Hugsa m.a. um grunn­gildi lífsins! Ég á bróður sem hefur starfað af heilindum við að stjórna einum af bestu kórum landsins og þó víðar væri leitað, fengið verð­laun er­lendis! Ég á bróður sem hefur starfað við eina af þeim kirkjum landsins okkar, sem margir líta á, sem þá kirkju sem hægt er að bera sig saman við í mörgu, ekki síst með tón­listar­flutning í huga!

Ég á bróður sem hefur verið organ­isti til margra ára, við stærsta orgel sem leikið er á, á Ís­landi! Hefur einnig borið nafn Ís­lands víða um ver­öld, með sinni spila­mennsku! Ég á bróður sem hefur sett upp til flutnings, með sínum kórum, stærstu tón­listar­verk tón­listar­sögunnar! Ég á bróður sem var í for­svari við að stofna List­vina­fé­lag Hall­gríms­kirkju, sem hefur sett upp stærstu verk heims­bók­menntanna í formi tón­listar, mynd­listar o.fl. sem við allir lands­menn höfum notið góðs af! En nú á ég bróður í sárum!

Hvernig má það vera að allt það sem bróðir minn Hörður Ás­kels­son hefur gert, sem er miklu meira en það sem ég hef talið hér að ofan, sem er allt meira og minna í þágu kirkjunnar, sé einn daginn gleymt og grafið, ekki þakkar­vert? Ég veit að upp komu ein­hverjir sam­skipta­örðug­leikar milli List­vina­fé­lags Hall­gríms­kirkju og sóknar­nefndar sem hafa staðið í ein­hvern tíma og enduðu nú ný­lega, eins og al­þjóð veit en lítið er talað um. Sem endaði með því að bróður mínum er sagt upp, eða boðinn starf loka­samningur sem var svo skammar­legur að hann af­þakkaði hann!

Ég ætla ekki að rekja hér sam­skipti Harðar og sóknar­nefndarinnar, þó það væri rétt að gera það ein­hvern tíma, enda ó­trú­legur skrípa­leikur og fólk hefði gott af að sjá, hvernig það á­gæta fólk sem þar situr, hefur komið fram við bróður minn og Ingu Rós Ingólfs­dóttur konu hans, sem var fram­kvæmda­stjóri List­vina­fé­lags Hall­gríms­kirkju. Í mínum huga og er á­stæða þessara hug­leiðinga til þín og kirkjunnar í heild, hvar er kær­leikurinn, um­burðar­lyndi, fyrir­gefning og þá ekki síst þakk­læti! Það skrítna við þetta allt saman er, að það hefur hvergi komið fram hvað Hörður Ás­kels­son gerði af sér til að hljóta þessa með­ferð frá kirkjunnar mönnum!

Maður hallast helst að öfund, þá öfund sóknar­nefndarinnar út í List­vina­fé­lagið, það kristallast alla­vega í öllum að­gerðum formanns sóknar­nefndar. Í þessu máli er erfitt að sjá að fylgt hafi verið grunn­gildum kristinnar trúar. Á­gæta frú biskup, þetta bréf er til þín og biskups­stofu, en það eru fleiri sem ættu að fá svona bréf, t.d. prestar Hall­gríms­kirkju og sam­starfs­fé­lagar bróður míns í kirkjunni, það hefur ekki heyrst neitt frá þessu fólki, alla­vega ekki mjög hátt! Það kann kannski ekki að segja takk!

Höfundur er áhugamaður um tónlist í kirkjum landsins.