Allt frá byrjun þessa ríkisstjórnarsamstarfs var ljóst að það yrði engin sæluvist fyrir Vinstri græna að vera í svo nánu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur reyndar þolað það merkilega vel, aðrir þingmenn flokksins síður og æ stærri hópur kjósenda flokksins hefur átt í erfiðleikum með að sætta sig við þetta bandalag.

Mál egypsku barnafjölskyldunnar sem flytja átti af landi brott í gær en lét sig síðan hverfa er afar dapurlegt. Forsætisráðherra og þingmenn Vinstri grænna beittu sér ekki í málinu. Sem er þvert á það sem þingmenn flokksins hefðu gert hefðu þeir verið í stjórnarandstöðu. Þá hefði öll þjóðin fengið að vita að Vinstri græn stæðu vörð um rétt flóttabarna og sætu ekki þegjandi hjá þegar vísa ætti þeim úr landi. Þetta vita þingmenn Vinstri grænna jafn vel og allir aðrir – og þeim getur varla liðið vel. Sjálfsagt hugga þeir sig með því að í ríksstjórnarsamstarfi þurfi stundum að slá af prinsippum og láta jafnvel eins og þau séu ekki til. Vitneskjan um að stór hópur kjósenda flokksins sé æfur vegna málsins ætti þó að valda þingmönnum flokksins áhyggjum. Það er ekki ýkja langt til kosninga.

Af stjórnarflokkunum koma Vinstri græn verst út úr þessu máli, einfaldlega vegna þess að þingmenn flokksins voru þeir sem líklegastir voru til að taka sér stöðu með flóttabörnum. Það var ekkert gert.

Varla hefur nokkur maður búist við að þingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu opinbera mannúð í málinu, enda gerðist það ekki. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra var aðallega pirruð á því að fjölmiðlar væru sífellt að leita uppi barnafjölskyldur á flótta og vekja athygli á stöðu þeirra. Það gerir starf hennar mun erfiðara, framkallar vesen og alls kyns óþægilegar spurningar frá fjölmiðlafólki.

Sá ráðherra ríkisstjórnarinnar, framsóknarmaðurinn Ásmundur Einar Daðason, sem skreyttur hefur verið með titlinum barnamálaráðherra lagði mikið upp úr því að koma því til skila að honum kæmi þetta mál alls ekki við. Er ekki hægt að losa þennan mann við titil sem hann skreytir sig með þegar honum hentar en kannast ekki við þegar virkilega reynir á?

Börn eiga allt það besta skilið. Líka það að ráðherra sem fær titilinn „barnamálaráðherra“ beri sanna umhyggju fyrir velferð þeirra og taki slaginn fyrir þau. Barnamálaráðherra lyppaðist niður í þessu máli. Hvað er það versta sem hefði gerst ef hann hefði staðið í lappirnar og staðið með börnunum? Hinn freki og ráðríki Sjálfstæðisflokkur hefði tryllst – og hvað með það? Það má vel vinna með einhverjum öðrum. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki ómissandi fyrir íslenska þjóð, þótt flokksmenn hans muni aldrei nokkurn tímann fást til að trúa því.

Það er leitt til þess að vita að enginn ráðherra ríkisstjórnarinnar hafði kjark og þor til að standa með börnum sem þrá heitt að eignast skjól hér á landi.