Þriggja ára drengur sér fram á langa bið eftir að komast að hjá talmeinafræðingi. Á meðan mun málþroski hans ekki dafna, heldur þvert á móti veikjast.

Tveggja ára börn bíða misserum saman eftir því að komast að í þroskagreiningu hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, biðtíminn er raunar upp eftir öllum aldri; var 10 til 17 mánuðir hjá börnum allt að átján ára fyrir 5 árum, en hefur bara lengst, var 13 til 24 mánuðir fyrir þennan aldurshóp á síðasta ári.

Á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans bíða börn nú að meðaltali tveimur mánuðum lengur en fyrir tveimur árum. Og í tilviki barna sem glíma við átröskun hefur biðin aldrei verið lengri á þessari deild einnar allrar mikilvægustu stofnunar landsmanna.

Foreldrar barna sem þurfa á tannréttingum að halda hafa aldrei þurft að taka jafn mikinn þátt í útlögðum kostnaði vegna vandans sem oft og tíðum eyðileggur bitið og tennurnar ef fjárhagur heimilisins ræður ekki við kostnaðinn.

Eini frádrátturinn er styrkur upp á 100 til 150 þúsund krónur frá Sjúkratryggingum nema í alvarlegustu undantekningartilvikunum.

Styrkirnir hafa ekki hækkað í tvo áratugi. 150 þúsund króna styrkur ætti samkvæmt verðlagshækkunum að vera 340 þúsund krónur í dag.

Þessi nauðsynlega þjónusta sem áður var ókeypis kostar nú foreldrana milljónir – og milljónir ofan ef um fleiri en eitt barn á heimilinu er að ræða, sem oft er raunin. Fyrir vikið fá mörg börn ekki meðhöndlun og læra að lifa með lokaðan munninn.

Fjárlög snúast um forgangsatriði. Þar eru börnin okkar ekki ofarlega á blaði. Þau sitja þar mörg hver eftir og tapa heilsunni, tapa brosinu. n

Konan bíður

Guðrún Hafsteinsdóttir vann eftirminnilegan kosningasigur fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi í haust. Hún hefur verið foringi í íslensku atvinnulífi um árabil, svo eftir hefur verið tekið – og er núna glæsilegur fulltrúi einkaframtaksins inni á þingi, þaulvön fyrirtækjarekstri fyrir austan fjall.

Margir spáðu henni ráðherradómi í vetrarbyrjun. En hún þarf að bíða, ólíkt körlunum sem komast í fyrsta sinn á þing, svo sem nokkur dæmi eru um – og má nefna þar formann flokksins fyrir þrjátíu árum.