Þann 26. mars sl. var samþykkt tillaga sem laut að því að koma á fót „Borgarvakt“ til að vakta afleiðingar COVID-19 faraldursins m.a. á aðstæður borgarbúa. Hópurinn vann drög að bráðavísum, sem ætlað er að horfa á áhrif faraldursins til skemmri tíma og á bráðavandann sem hann skapar til lengri tíma. Fram hefur komið hjá Borgarvaktinni að ef horft er til einstakra félagsvísa má ætla að í haust verði snörp fjölgun á tilvísunum til sérfræðinga skóla- og frístundasviðs. Vegna röskunar á skólastarfi frá febrúar til apríl fækkaði tilvísunum. Þess vegna má gera ráð fyrir fjölgun tilfella, bæði vegna áhrifa heimsfaraldursins og vegna uppsafnaðra mála.

Á biðlista eftir fyrstu og frekari þjónustu voru í febrúar sl. 674 börn, 429 biðu eftir fyrstu þjónustu og 245 eftir frekari þjónustu. Málaflokkur barna sem þarfnast sérfræðiþjónustu á vegum skóla er ekki forgangsflokkur hjá meirihlutanum í borgarstjórn.

Ein af mörgum tillögum Flokks fólksins sem lúta að því að stytta biðlista barna er að fjölga skólasálfræðingum til að lækka kúfinn. Ekki stendur til að samþykkja viðbótarfjármagn til skóla- og velferðarmála til að auka þjónustu af þessu tagi við börn og foreldra þeirra. Vandi barna sem bíða er af ýmsum toga, félags-, náms- og tilfinningalegur vandi, grunur um ADHD-röskun eða aðrar raskanir.

Á fundi borgarstjórnar 21. apríl lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að borgarstjórn samþykkti að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS). Tilgangurinn er að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfinu yrði börnum hlíft við langri bið eftir sérfræðiþjónustu. Samstarfið myndi t.d. snúa að málum þar sem skimun hefur leitt í ljós sterkar vísbendingar um ADHD. Í samstarfinu fælist að sálfræðingur skóla og sérfræðingar ÞHS færu saman yfir málin og afgreiddu þau með viðeigandi hætti. Þessi hópur barna fengi þar með greiningu og viðeigandi meðferðarúrlausn fyrr en ella. Tillögunni var vísað til starfshóps þar sem ekkert frekar hefur frést af henni.