Fréttastofa Stöðvar tvö sagði á sunnudagskvöld átakanlegar sögur barna, sem vistuð voru á barnaheimili sem starfrækt var í Richardshúsi á Hjalteyri, á áttunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt frásögnum fólks sem þar dvaldi í bernsku, flest fyrir tilstuðlan Barnaverndarnefndar, voru þau beitt kynferðislegu, líkamlegu og andlegu ofbeldi af hjónunum sem heimilið ráku.

Börnin voru svelt, lyfjuð, misnotuð, niðurlægð, gert að hlýta grimmilegum refsingum og öll voru þau einangruð frá fjölskyldum sínum.

Frásögn þessa fólks er þyngri en tárum taki og mannlegri grimmd virðast lítil mörk sett. Heimilið var starfrækt á árunum 1972 til 1979 en eftir fimm ára rekstur var farið að kanna orðróm um að þar væri ekki allt með felldu.

Skýrsla með fjölmörgum athugasemdum var send Barnaverndarráði Íslands, auk þess sem allavega einn aðstandandi hafði samband við bæði lögreglu og ráðherra. Málinu var hins vegar vísað aftur í hrepp þar sem starfsemin fékk vottun. Börnin sem fjölmörg komu úr erfiðum aðstæðum og áttu sér fáa málsvara, nutu ekki vafans.

Heimilinu á Hjalteyri var lokað árið 1979, en áhugi barnlausu hjónanna á starfi með börnum var þó enn til staðar. Árið 2003 gerast þau dagforeldrar í Garðabæ og opna í framhaldi þar einkarekinn Montessori leikskóla árið 2006.

Leikskólinn var starfræktur í þrjú ár og á þeim tíma leituðu minnst tveir fyrrum vistmenn á Hjalteyri til lögreglu og yfirvalda með reynslu sína. Ekki er vitað til þess að neitt hafi verið aðhafst.

Aftur nutu börnin ekki vafans.Foreldrar hljóta að treysta á að hið opinbera sinni eftirlitsskyldu sinni gagnvart dagforeldrum og sjálfstætt starfandi leikskólum. Enda á báðum stöðum oft um að ræða gæslu okkar allra minnstu og viðkvæmustu, ómálga barna og jafnvel hvítvoðunga.

Sjálfstætt starfandi leikskólinn Sælukot hefur verið til umfjöllunar undanfarið, enda kröfðust fyrrum starfsmenn leikskólans að honum yrði lokað vegna slæms aðbúnaðar barna og starfsfólks. Í ljós kemur að kvartanir hafa verið sendar Reykjavíkurborg frá árinu 2016 án þess að nokkuð hafi verið aðhafst af viti.

Skóla- og frístundasvið fer með lögbundið eftirlit með starfsemi sjálfstætt starfandi leikskóla, en samkvæmt yfirlýsingu Reykjavíkurborgar varðandi skólann er það hlutverk rekstraraðila að grípa til aðgerða þegar upp koma einstaka mál eða athugasemdir gagnvart starfsemi leikskólans.

Hvað ef það eru rekstraraðilarnir sjálfir sem eru vandamálið? Hver aðhefst þá? Við verðum að geta treyst því að eftirlit sé haft með þeim sem gerðir eru þjónustusamningar við og fá leyfi til að gæta okkar allra mikilvægasta fólks.