Haustið byrjaði með hvelli hér í Reykjavík, veðrið var ekkert að tvínóna við hlutina og minnti okkur á að stutt er í vetur og gaf okkur ískaldan forsmekk að honum.

Það sem kemur þó ekkert á óvart er að ekki gekk að manna allar lausar stöður á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum hjá Reykjavíkurborg.

Því fylgja haustinu ansi stór vandamál fyrir margar barnafjölskyldur í Reykjavík.Samkvæmt síðustu tölum sem kynntar voru fyrir okkur á fundi Skóla- og frístundaráðs eru 888 börn á biðlista eftir plássi á frístundaheimili eða hafa aðeins komist að í hlutavistun.

Þetta skapar gríðarlegan vanda og verða foreldrar að skutlast borgarhlutanna á milli til þess að redda málunum þangað til að börn þeirra fá þá vistun sem sótt var um.

Á frístundaheimilunum og sértækum félagsmiðstöðvum á eftir að ráða í 68 stöður til þess að fullmanna.Hvers vegna er þetta svona á hverju hausti?

Það eru nokkur atriði sem auðvelt væri að laga strax og koma þannig í veg fyrir þessa löngu biðlista næsta haust. Hækkum laun starfsmanna á frístundaheimilum til jafns við laun starfsmanna í félagsmiðstöðvum þar sem stúdentspróf er metið til hækkunar á launum.

Þessi einfalda aðgerð myndi hafa áhrif á mönnun frístundaheimila til batnaðar.Annað sem má gera er að ráða frístundafræðinga í hundrað prósent störf þar sem þeir vinna í skólunum fyrir hádegi og á frístundaheimilinu eftir hádegi. Þeir eru þá brú á milli skóla og frístundar og þannig hægt að samþætta starfsemi skóla og frístundaheimila mun betur.

Þannig getur starfsfólkið flakkað á milli skóla og frístundaheimila yfir vetrarmánuðina og starfað á frístundaheimilum yfir sumartímann og verið í hundrað prósent starfshlutfalli.Þessi tvö atriði myndu breyta miklu og verða til þess að biðlistar næsta haust myndu verða styttri vegna þess að mun betur myndi ganga að manna frístundaheimili Reykjavíkurborgar.