Þótt bóluefni lofi góðu verður veturinn erfiður fyrir marga í Reykjavík. Veiran og veikindi leika okkur grátt, en jafnframt hafa sóttvarnaaðgerðir bitnað hart á mörgum rekstraraðilum og einstaklingum. Um áramótin rennur ferðagjöf ríkisins út og í vetur renna tekjutengdar atvinnuleysisbætur út hjá mörgum. Viðspyrnu er því þörf á þessum tímapunkti.

Við leggjum til að borgin taki upp boltann og komi með borgargjöf upp á 3.000 krónur sem gildi gagnvart rekstraraðilum í borginni. Á erfiðum tímum munar um þetta. Við viljum að borgin taki erindi ferðaþjónustunnar vel um að fasteignasköttum verði að hluta breytt í skuldabréf með tryggum veðum. Þannig myndu þungar byrðar verða minni í vetur. Það skiptir sköpum. Þessar aðgerðir minnka hættu á gjaldþrotum og aðstoða rekstraraðila við að komast í gegnum dimman vetur. Við erum með tillögu um lækkun gjalda á húsnæði sem bæði örvar húsbyggjendur og lækkar húsnæðiskostnað fólks. Samhliða þessu viljum við að byggt verði á hagstæðari svæðum í borginni til að tryggja framboð byggingarlands.Þá viljum við að borgin sé með samræmt ráðgjafartorg fyrir fólk í vanda. Loks viljum við tryggja góðan mat fyrir skólabörn, en lokun skólamötuneyta getur skapað tímabundinn vanda.

Þessi fimm úrræði eru okkar tillaga að viðspyrnu í borginni. Það er mikilvægt fyrir borgina að vernda störfin í borginni. Atvinnuleysi hefur snaraukist og útsvarstekjur borgarinnar gefa eftir. Grunnur að velferð framtíðar er fólginn í öflugu atvinnulífi. Án starfa er ekkert útsvar fyrir borgina. Viðspyrna núna getur skilað sér margfalt til baka þegar rofar til á nýju ári. Við getum þá verið tilbúin að taka á ný á móti ferðamönnum og skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Reykjavíkurborg er langstærsta sveitarfélag landsins. Ríkið hefur farið á undan með góðu fordæmi. Nú er komið að því að borgin geri sitt. Þannig leggjumst við saman á árarnar og komum okkur í gegn um veturinn.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.