Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Reykjavík eru söguleg. Framsóknarflokkurinn er óumdeildur sigurvegari. Ýmsar sviðsmyndir eru mögulegar þegar kemur að myndun nýs meirihluta í borginni. Einar Þorsteinsson og Framsóknarflokkurinn hljóta að vera þar í forystuhlutverki, miðað við ákall kjósenda. Eðlilegt og líklegt er að Einar geri kröfu um borgarstjórastólinn. Eins og Einar sagði sjálfur á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöld þá er núverandi meirihluti fallinn og nýr tekur við.

Kosningaúrslit eru Framsóknarflokknum hliðholl víðar en í Reykjavík. Það sama var upp á teningnum í síðustu kosningum. Flokkurinn hefur breytt um ásýnd, breyst úr því að vera flokkur sem alltaf var að verja kerfið ásamt því að ástunda ýmiss konar sjálfshygli, í að verða flokkur sem boðar að almannaheill sé í fyrirrúmi. Ásmundur Einar Daðason hefur átt drjúgan þátt í þessu með áherslu á velferðarmál og málefni barna. Einar Þorsteinsson segist vilja hafa hreinskilni og gegnsæi að leiðarljósi. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, vill koma böndum á ofurhagnað í sjávarútvegi þannig að þjóðin fái réttlátan skerf. Flokkurinn geldur ekki fyrir óviðurkvæmileg ummæli hans eins og margir töldu víst. Vonandi er það breyting sem er einlæg og komin til að vera