Reykjavík er á margan hátt allra besta sveitarfélag Íslands. Hún er höfuðborgin okkar. Á síðustu árum og áratugum hefur hún lært betur og betur að gegna því hlutverki. Hún sinnir yfirleitt vel því fólki sem á undir högg að sækja í lífinu og rúmar vel fólk af öllum gerðum. Þetta vita þeir Íslendingar sem til hennar hafa flúið en borgin er full af íslensku flóttafólki sem hefur ekki getað skapað sér það líf sem það óskar sér í átthögum sínum úti á landi. Eitt dæmi um þetta er fjöldi hinsegin fólks sem ekki gat komið út úr skápnum án þess að eyðileggja líf sitt í leiðinni. Það þurfti fyrst að flytja til Reykjavíkur.

Það var áhugaverð grein í bandaríska tímaritinu The Atlantic nýverið um flóttamannakrísu, sem upp gæti komið í Bandaríkjunum á næstunni vegna þeirrar alvarlegu árásar á mannréttindi kvenna sem stendur fyrir dyrum af hálfu Hæstaréttar landsins. Vandamálið er að utan um frjálslyndari ríki Bandaríkjanna hefur verið reistur múr óyfirstíganlegs kostnaðar sem liggur fyrst og fremst í háu húsnæðisverði. Fólk sem ekki vill búa við sturlaða mannvonsku á ekki undankomu auðið. Í útúrdúr í greininni er vísað til lista bandarískra stjórnvalda yfir borgir sem tekið gátu á móti flóttafólki frá Afganistan og Írak. Engin af stærstu og frjálslyndustu borgum landsins, þeirra á meðal New York og Washington DC, var á listanum.

Við könnumst við þetta, því miður. Þrátt fyrir að hafa í áratugi og aldir tekið íslensku flóttafólki opnum örmum, hefur Reykjavík lagt miklu minna á sig en hún ætti að gera til að bjóða flóttafólk frá hrjáðum löndum velkomið.

Það er kaldhæðnislegt að flóttafólkið sem hefur þegið sérstakt boð íslenska ríkisins til að flytjast hingað til lands á síðustu árum tilheyrir oftar en ekki sömu minnihlutahópum og hafa flúið hina íslensku landsbyggð. Þetta eru fátækar mæður, hinsegin fólk og fólk með ýmsar heilsutengdar sérþarfir. Við komuna til landsins er þetta fólk svo sent umsvifalaust út á land til að setjast að í íbúðum þeirra sem flúðu til Reykjavíkur.

Reykjavík er eina borgin okkar og langfjölmennasta sveitarfélag landsins. Í fjölmenninu felst sú fjölbreytni og fjölmenning sem tryggir best mannréttindavernd minnihlutahópa. Hvorki húsnæðisokur né ógestrisni mega verða til þess að okkar eigin landar eða fólk sem til okkar leitar í neyð verði af réttinum til að ráða sér og lífi sínu sjálft.