Í þessum skrifuðu orðum sit ég á alþjóðaflugvelli umkringdur fólki með andlitsgrímur. Ég hlusta á minn hefðbundna Spotify-lagalista, Ferðalög á ferðalögum. Ég hef ekki ferðast á milli landa síðan í febrúar, sem er líklegast lengsti tími sem liðið hefur á milli ferðalaga í heilan áratug. Það liggur við að ég hafi verið farinn að sakna öryggisleitarinnar. Að taka af sér beltið, rífa snyrtivörurnar upp úr handfarangrinum og skella þeim á bakkann án þess að næsti maður komi auga á óhreinu nærbuxurnar er alltaf jafn niðurlægjandi.

Frá því COVID kynnti sig til leiks þá hef ég ekki farið í skimun. Hef bara heyrt af því hræðilegar sögur. Eyrnapinna á stærð við skíðastaf er troðið svo langt upp í nösina að engu líkara er en að sækja eigi saursýni. Ég get ekki sagt að ég hlakki til komunnar á Keflavíkurflugvöll.

Þaðan verð ég svo sendur í útlegð, þótt hún fari fram á eigin heimili. Aðgreindur frá fjölskyldu minni má ég dúsa heima og finna mér eitthvað til dundurs í fimm daga.

Í fréttum er það helst að tvær ungar stúlkur hittu tvo unga drengi. Fjölmiðlar keppast við að flytja af þessu fréttir, eins og þetta sé ekki eðlilegasti hlutur í heimi. „Ungt fólk kysstist“ – stöðvið prentvélarnar! Kommentakerfin eru yfirfull af hneykslunargjörnu fólki, sem kemur þetta auðvitað ekkert við. Fólkið virðist brjálað yfir því að tveggja metra reglan hafi verið brotin, þótt það sjálft brjóti regluna tíu sinnum á dag. Ég vona að eitthvað nýtt verði að frétta næstu fimm daga, þar til borað verður í nefið á nýjan leik.