Á dögunum barst sú frétt, að ríkisstjórn Austurríkis hefði sett útgöngubann á alla óbólusetta í tíu daga. Máttu óbólusettir Austurríkismenn, um tvær milljónir, af rúmlega níu milljónum landsmanna, aðeins yfirgefa íbúð sína, ef brýn nauðsyn krefði. Um síðastliðna helgi bart svo sú frétt, að Schallenberg kanslari hefði í samráði við leiðtoga sambandsríkjanna níu í Austurríki ákveðið að bæta um betur og innleiða skyldubólusetningu við Covid frá febrúar 2022.

Skyldi þetta vera mannfyrirlitning eða valdníðsla austurrískra stjórnvalda? Nei. Þessi ákvörðun byggir á staðreyndum og skynsamlegu mati, þar sem almannaheill –velferð og öryggi mikils meirihluta þjóðarinnar – er lögð til grundvallar.

Á sama tíma gerist það hér, að Rúnar Pálsson, yfirlæknir á Landspítala, staðfestir í viðtali við RÚV, að óbólusettir sjúklingar þar séu nú orðnir fleiri, en hinir bólusettu, þó að hlutfall óbólusettra sé aðeins tíu prósent af þjóðinni. Þann 19. nóvember hafi verið þrettán óbólusettir og tíu bólusettir á sjúkrahúsinu.

Það þýðir, að innlagnir óbólusettra eru hlutfallslega sex til sjö sinnum fleiri en innlagnir bólusettra!Ekki bara hér, heldur alls staðar um Evrópu eru það einmitt óbólusettir, sem virðast næra veiruna, halda henni gangandi, og eru sums staðar allt að 90% innlagðra á gjörgæzludeildum einmitt óbólusettir.

Yfirfylling spítala og gjörgæzludeilda verður því að skrifast á reikning óbólusettra. Ef þeir hefðu látið bólusetja sig, virðist augljóst, að ekki hefði komið til yfirfyllingar og þeirra margvíslegu vandræða, sem af þeim stafa, ekki bara fyrir frelsi almennings, mannlífið, heldur líka fyrir atvinnulífið, sérstaklega veitinga- og þjónustugeirann, en á honum byggja þúsundir fjölskyldna afkomu sína.

Þessi þróun og raunstaða virðist hafa farið fram hjá stjórnvöldum hér. Það er skrýtið, að verklag stjórnvalda hér skuli, að verulegu leyti, vera annað, en víðast erlendis.Í stað málefnalegrar nálgunar, þar sem farið væri í nauðsynlegt manngreinarálit og mönnum skipt upp í áhættuhópa, eins og nú gerist alls staðar erlendis, eru stjórnvöld hér enn einu sinni að skerða frelsi allra landsmanna og þjarma illilega að ýmsum atvinnurekstri.

Forsætisráðherra talaði fjálglega um það, að við værum svo frjálslynd þjóð, að takmarkanir á ákveðna hópa myndi ekki henta okkar þjóðfélagi. Annað eins orðagjálfur. Ætli frelsishyggja sé minni á hinum Norðurlöndunum, eða annars staðar í Evrópu, en hér?Ekki var innlegg heilbrigðisráðherra gæfulegra. Hún taldi af og frá, að þegnum landsins yrði skipt upp í hópa, greinilega án þess að skilja, að óbólusettir hafa nú þegar greint sig frá almenningi, miklum meirihluta þjóðarinnar, með því að þráast við að láta bólusetja sig.

Óbólusettir hafði því sjálfir klofið þjóðina, og þar með tekið sér frelsi til að leggja kvaðir og íþyngjandi takmarkanir á alla aðra; mannlíf og atvinnulíf. Það blasir við, að, ef þessar umfram innlagnir óbólusettra – nú sex til sjö sinnum fleiri, en þeirra bólusettu – hefðu ekki komið til, hefði ekki þurft að innleiða nýjar atferlis- og samkomutak-markanir fyrir alla.Það frelsi, sem hefur ríkt síðustu vikur og mánuði, hefði þá getað gilt áfram, nú í aðdraganda og önnum jóla. Auðvitað er frelsi einstaklingsins mikilvægt, ekki sízt, þegar um eigin líkama manna er að ræða, en öll mál, líka frelsið, verða að hafa sín mörk.

Ef óbólusettir, um tíu prósent landsmanna, hafa með veikindum sínum og umfram innlagnarþörfum ráðið úrslitum um það, að nú var aftur verið að skella á takmörkunum fyrir alla, þá tel ég það óhæfu og yfirkeyrt frelsi, sem ekki stenzt, litlum minnihlutahópi til handa.Í minni gömlu heimaborg, Hamborg, til að mynda, hefur nú um skeið gilt sú regla, að þeir, sem eru bólusettir eða hafa hlotið bata af pestinni, geta „farið um allt og gert allt“, en óbólusettir verða að sæta vaxandi takmörkunum.

Svipuð þróun á sér stað víða um Evrópu. Þetta á líka í vaxandi mæli við á vinnustöðum. Enn geta óbólusettir tryggt sína stöðu með daglegum neikvæðum prófum, en þolinmæði vinnuveitenda með það fyrirkomulag er að þverra.Víða er sú regla komin í gildi, að, ef óbólusettir veikjast af Covid, verði veikindadagar ekki greiddir. Sums staðar vofir uppsögn yfir, ef menn láta ekki bólusetja sig.

Umburðarlyndið gagnvart óbólusettum starfsmönnum í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu er líka víða komið á lokastig, en, eins og allir vita, ber þetta fólk ábyrgð á lífi, limum og velferð þeirra, sem veikastir eru fyrir og minnst þola.Það virðist ljóst, að Þórólfur, Svandís og Katrín verða nú að setja sig í aðrar, réttmætari og virkari stellingar með sína Covid-stjórnun. Án tafar.