Fyrir rétt rúmu ári ritaði ég á þessa síðu pistil, sem var uppfullur af væntingum um komandi ár, 2021. Pistilinn kallaði ég Komdu fagnandi og hefur hann ekki elst vel. Við upphaf 2021 trúði ég því að með væntanlegum bólusetningum yrði Covid-19 veiran úr sögunni um svipað leyti og lóan færi af landi brott. Nú þremur bólusetningum og einu ári síðar, hef ég nýlokið við að afpanta hótel í Ölpunum af ótta við að einhver fjölskyldumeðlimur smitist á næstu dögum. En af einhverjum ástæðum höfum við, fimm manna fjölskyldan, enn ekki smitast, en erum undir það búin þessa dagana. Stóri lærdómurinn af nýliðnu ári er að þetta ástand mun vara eitthvað áfram og í stað væntinga um lok faraldursins blasir nú við ískalt bólusetningarraunsæi.
Um áramót stöldrum við oft við og horfumst í augu við eigin breyskleika, af svipuðu raunsæi og það sem blasir við okkur núna. Þá setjum við gjarnan fram mælanleg markmið, sem miða að því að við náum að verða besta útgáfan af sjálfum okkur. Þegar markmiðum ársins er svo náð, fyllumst við tómleikatilfinningu og um leið áttum við okkur á að kannski var markið ekki sett nógu hátt. Var nýklárað markmiðið kannski bara að verða næstbesta útgáfan af sjálfum okkur? Svona heldur þetta áfram ár eftir ár, þangað til við áttum okkur á því að markmið eru hálf gagnslaus, ef við vitum ekki af hverju við erum að stefna að þeim. Annars verður útkoman alltaf bara næstbesta útgáfan, því sú besta er alltaf handan við næsta markmið. Það er nefnilega ferðalagið en ekki ferðalokin sem þetta snýst allt saman um. Njóttu því ferðalagsins sem árið 2022 mun verða, sem vonandi fullbólusett næstbesta útgáfan af sjálfum þér.