Sunnudagseftirmiðdagur í febrúar. Það er óvenju hlýtt miðað við árstíma en lítils háttar úrkoma á köflum. Hjón sem brátt mega teljast miðaldra aka úr borginni og er ferðinni heitið vestur á Mýrar. Þegar þau eru rétt komin í Kollafjörð brýst sólin fram. Ferðin er tíðindalítil utan þess að þau eru ekki sammála um á hvaða hlaðvarp eigi að hlusta. Niðurstaðan verður Rás 1 í útvarpinu. Þegar þau nálgast Borgarnes lækkar maðurinn skyndilega í útvarpinu og segir: ,,Heyrðu, mikið langar mig í bollu, eigum við ekki að fá okkur rjómabollu í bakaríinu við brúna?“ Konan jánkar þessu en bætir við af eðlislægri hagsýni að þá sé líka upplagt að kaupa um leið bollu fyrir soninn til að taka með í skólann næsta dag, bolludag. Þau leggja bílnum fyrir utan bakaríið og konan hleypur inn, en kemur strax til baka vonsvikin því það er nýbúið að loka bakaríinu.

Áfram er ekið inn í Borgarnes og stansað í hjarta bæjarins. Konan hleypur út til að athuga hvort ekki fáist rjómabollur í stórmarkaðinum. Maðurinn bíður í bílnum en sér konu sína koma út bollulausa og benda í átt að þjónustumiðstöð N1. Greinilegt er að þar á að gera lokatilraun. Eftir skamma stund kemur konan til baka bollulaus en skælbrosandi. Eiginmaðurinn er forviða. Hún upplýsir að þegar starfsmaður N1 heyrði af vandræðum hjónanna hafi hann brugðist við á óvæntan hátt og sagt: ,,Ég keypti sko fjórar rjómabollur áður en ég fór í vinnuna en borðaði bara tvær. Þú mátt alveg fá þær, ég er búinn að borða nóg.“ Konan afþakkaði kærlega gott boð og í bílnum komast hjónin að því að hugulsemi í garð ókunnugra endist miklu lengur en rjómabolla í maga. Sólin skín.