Á undanförnum misserum hafa átt sér stað miklar hækkanir á fasteignamarkaði. Þessar hækkanir hafa bæði verið drifnar áfram af aukinni eftirspurn eftir húsnæði í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans og skorti á framboði á húsnæði. Þegar maður lítur á þessar hækkanir er eðlilegt að velta fyrir sér hvort bóla sé til staðar á fasteignamarkaði eða ekki.

Í byrjun þessa mánaðar var greint frá því að fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans teldi að vísir að eignabólu gæti verið til staðar á íbúðamarkaði. Í kjölfar þeirra fregna birtust viðtöl við hina ýmsu sérfræðinga þar sem þeir lýstu því yfir að þetta mat væri líklega rétt. Það sé augljóslega mikið misvægi á eftirspurn og framboði og slíkt gangi ekki til lengdar og því geti leiðrétting verið í kortunum.Þó eru sumir sem vilja meina að fasteignamarkaðurinn sé þess eðlis að lækkanir geti ekki átt sér stað.

En staðreyndin er sú að verðlækkanir á fasteignamarkaði geta að sjálfsögðu átt sér stað, líka að nafnvirði, eins og á öllum öðrum eignamörkuðum. Hann hefur vissulega ýmsa eiginleika sem gera hann frábrugðinn öðrum eignamörkuðum en það breytir því ekki að lækkanir geta átt sér stað.

Fasteignaverð hefur hækkað um rúmlega 25 prósent á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 12 mánuðum samkvæmt tölum frá Þjóðskrá sem birtar voru í gær. Leita þarf langt aftur í tímann til að finna viðlíka hækkanir. Árstakturinn hefur ekki verið hærri síðan 2005 að nafnvirði en þá fór hann hæst í rúmlega 40 prósent. Sé litið til landsbyggðarinnar hafa jafnframt verið miklar hækkanir þar.

Ýmislegt bendir þó til að staðan muni skána á næstu misserum. Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans og hert lánþegaskilyrði munu að öllum líkindum koma til með að kæla markaðinn að einhverju leyti. Greiningardeildir bankanna spá því auk þess að aukið framboð af húsnæði komi inn á markaðinn seinna á þessu ári og mun það einnig hafa áhrif á fasteignaverð. Aftur á móti hafa Samtök iðnaðarins gefið út að þrátt fyrir fjölgun íbúða í byggingu sé enn mikill skortur og í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að fjölgun íbúða hér á landi hafi ekki haldið í við fjölgun íbúa.

Undirrituð ætlar ekki að spá fyrir um hvort bóla sé til staðar á fasteignamarkaðnum eða ekki. Það er hins vegar afar líklegt að hægja muni verulega á hækkunum á fasteignamarkaði og við munum líklega koma til með að sjá lækkanir á næstu misserum að minnsta kosti að raunvirði. Ef svo skyldi fara að efnahagsáfall myndi ríða yfir gætum við einnig séð lækkanir á nafnvirði á fasteignamarkaðnum.

Stóra spurningin er hvort það þýði að bóla sé til staðar á markaðnum eða ekki.