Grunnkrafan í siðuðu samfélagi ætti að vera sú að allir nái endum saman og geti í einum og sama mánuði bæði borðað og brotið tönn. Hver sem menntun, félagsleg staða eða pólitísk viðhorf eru hlýtur fólk að geta sammælst um það. Hér ætla ég að fjalla um gildi háskólamenntunar fyrir samfélagið. Margir hafa ekki kost á því að fara í háskóla og aðrir kjósa að láta það ógert af ýmsum ástæðum. Ekki skal vanmeta þeirra hlut í því að viðhalda gangverki þjóðfélagsins. Þar fyrir utan er ekki allt háskólanám jafngilt og þörfin fyrir mannskap með hinar og þessar gráðurnar er mismikil. Engu að síður er það staðreynd að menntuðum samfélögum vegnar betur og allt háskólanám nýtist með einum eða öðrum hætti, enda krefst það skipulags, þekkingarleitar, vekur upp spurningar og umræður um álitaefni og stuðlar að nýsköpun.

Lýðhyggja (e. populism) er í örum vexti víðs vegar um heiminn en hún elur almennt á ótta og reiði. Ótta við að tapa öllu sínu, ótta við aðra menningarheima og ótta við allt það sem er öðruvísi. Hátt menntunarstig þjóðarinnar er öllum til bóta og hindrar að vanþekking og ástæðulaus ótti brjóti niður grunnstoðir samfélagsins. Það verður því að vera þess virði að fara í framhaldsnám. Það verður að vera þess virði að taka á sig launaleysi/ launaskerðingu í þann tíma sem námið tekur. Það verður að vera þess virði að koma síðar inn á vinnumarkaðinn. Það verður að vera þess virði að taka námslán fyrir þá sem þau þurfa. Hver er hvatinn fyrir fólk að mennta sig ef launamunurinn er lítill sem enginn þegar upp er staðið og litið er til ævitekna? Ævitekjur vísa til þeirra tekna sem einstaklingur aflar starfsævina alla. Hver er hvatinn fyrir fólk ef háskólamenntun er nánast notuð sem skammaryrði? Hver er hvatinn fyrir fólk ef vísa á til háskólamenntaðra sem fitulagsins í þjóðfélaginu sem alltaf fái mest?

Dr. Kári Stefánsson, hinn skoðanaglaði stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar sagði nýlega að ekkert réttlæti fælist í því að laun þeirra sem hafa mikla menntun væru hærri en þeirra sem hafa litla menntun. Eingöngu ætti að tengja laun við afköst og ábyrgð. Ef unnið er með fólk, hvernig mælum við afköst? Eiga grunnskólakennarar að fá bónus fyrir hvert barn sem fær A? Fyrir hvert barn sem verður forstjóri? Hver á svo að meta ábyrgð starfa? Kári? Ábyrgðarmatsnefnd? Á hvaða launum ætti hún að vera? Þjóðfélagið þarf á sérfræðingum að halda, það er óumdeilanlegt. Sérfræðikunnátta og menntun á að vera þess virði að hennar verði örugglega aflað, nú sem og í framtíðinni. Jafnvel þótt Kári Stefánsson sé ósammála.