Hvernig væri það að geta endurnýjað ökuskírteini eða vegabréf um leið og maður fær bók í bókasafninu, fer á upplestur eða fær sér kaffi og leyfir krökkunum að leika lausum hala í fallegum leikrýmum á meðan? Það er hægt í Árósum sem er álíka stór borg og höfuðborgarsvæðið hér heima. Slík borgaraþjónusta er líka veitt í nokkrum hverfa­bókasöfnum. Af hverju þurfa Reykvíkingar að fara til sýslumanns í Kópavogi til að fá sjálfsagða þjónustu. Er einhver knýjandi ástæða til að hafa fyrirkomulagið eins og það er? Flókið, tímafrekt, óvistvænt.

Á okkar miklu nettímum ganga bókasöfn í endurnýjun lífdaganna. Borgir á Norðurlöndum hafa tekið forystu í þeim efnum. Talað er um „nýja norræna bókasafnið“. Gott dæmi um það er DOKK1, bókasafn, þjónustu- og menningarmiðstöð í Árósum, byggð niður við höfn á vannýttu iðnaðarsvæði. Innanbæjarlest keyrir inn í húsið á jarðhæð. Dokkin dregur til sín mikinn fjölda borgarbúa á hverju ári – og gesti frá öðrum borgum í Evrópu, meðal annars Reykjavík, sem kynna sér starfsemina.

Í Helsinki var opnað nýtt höfuðbókasafn og menningarmiðstöð fyrir skemmstu sem kallast Oodi og hefur vakið heimsathygli. Niður við höfn í Ósló verður á næstunni opnað glæsilegt aðalbókasafn með fyrirlestrasölum, vinnustofum, veitingum og auðvitað fullt af bókum. Nokkrum hverfabókasöfnum hefur verið breytt í ævintýraheim, samkomustað og auðvitað lestrar- og vinnustað. Aðsókn hefur tvöfaldast.

Nokkur ár eru síðan farið var að vinna í svipuðum anda í Reykjavík. Á næsta ári verður opnað bókasafn í Úlfarsárdal sem tengist menningarmiðstöð, skóla og sundlaug. Það gæti orðið ævintýralegur staður. Eigum við að taka skrefið alla leið og flétta borgaraþjónustunni inn í bókasöfnin eins og gert er í Árósum? Hvernig getum við bætt þjónustu og aðstöðu fyrir fjölskyldur og börn, fyrir fólk að hittast og læra saman í bókasöfnunum? Hvernig getum við gert Grófarhúsið að spennandi stað sem dregur til sín fullt af fólki? Ný stefna sem nú er unnið að fyrir Borgarbókasafnið vísar okkur vonandi veginn.