Skoðun

Bönnum drápsvélmennin!

Í lok ágúst var haldinn mikilvægur fundur í svissnesku borginni Genf. Þar hittust sérfræðingar frá fjölmörgum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna til að ræða mögulegar aðgerðir gegn framleiðslu og þróun sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla – svokallaðra drápsvélmenna.

Eflaust eru drápsvélmenni í hugum margra einungis fyrirbæri úr vísindaskáldsögum eða lélegum hollívúddmyndum. Veruleikinn er þó sá að á liðnum árum hefur gríðarlegum fjármunum verið varið í að þróa ómannaðar vígvélar sem útbúnar eru með gervigreind með það að markmiði að ráðast að fólki og drepa það á grundvelli eigin ákvarðana, án þess að mannshugurinn komi þar að máli.

Sérfræðingar hafa þungar áhyggjur af þessari þróun, sem muni ýta undir nýtt vígbúnaðarkapphlaup, og afleiðingunum af beitingu þessara vopna í stríðsátökum framtíðarinnar. Margir af kunnustu frumkvöðlum á sviði vísinda og tækni hafa jafnvel lýst þeirri skoðun sinni að með þróun slíkra véla gæti mannkynið verið að undirrita sinn eigin dauðadóm.

Þær raddir verða sífellt háværari að alþjóðasamfélagið verði að koma sér saman um bann við sjálfvirkum vígvélum. Nokkrar ríkisstjórnir hafa þó lýst andstöðu sinni við þær hugmyndir. Má þar nefna Bandaríkin, Rússland, Bretland, Frakkland og Ísrael.

Af dagskrá fundarins í Genf er ekki að sjá að Íslendingar hafi átt þar fulltrúa. Það eru vonbrigði í ljósi þess að Ísland hefur á að skipa ágætum sérfræðingum á sviði vitvélarannsókna. Mikilvægi þessa málaflokks er jafnframt slíkt að utanríkisþjónustan ætti að hafa hann í forgangi.

Líklegt má telja að tillögur um bann við drápsvélmennum komi til kasta Sameinuðu þjóðanna á allra næstu misserum. Þá munu fulltrúar Íslands greiða atkvæði um málið og hljóta að gera það í samræmi við fyrirliggjandi samþykkt Alþingis, en árið 2016 samþykkti þingið tillögu Katrínar Jakobsdóttur og fleiri þingmanna um stuðning Íslands við alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu slíkra véla.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Bílabylting
Kjartan Hreinn Njálsson

Skoðun

Meiri einokun takk!
Þorsteinn Víglundsson

Bakþankar

Mál að linni
Haukur Örn Birgisson

Auglýsing

Nýjast

Íslensku trixin II
Bolli Héðinsson

Gerum lífið betra
Ágúst Ólafur Ágústsson

Fýlukast
Kolbrún Bergþórsdóttir

Viðskiptamenn ársins
Guðmundur Steingrímsson

Af fornum ferðaleiðum
Kristín I. Pálsdóttir, Vera Roth, Ib Göttler, Andri Stefánsson, Guðný Guðlaugsdóttir, Hörður Finnbogason, Unnur Rut Rósinkransdóttir

Neitun eða afneitun?
Sif Sigmarsdóttir

Auglýsing