Saga tilheyrir ekki aðeins fortíðinni. Saga verður til í samtímanum er við sviptum hulunni af gleymdum atburðum svo opinberast áður óþekktur sannleikur. Og um leið og sagan varpar ljósi á liðna atburði setur hún samtímann í samhengi.

Blaðamaður dagblaðsins The Times fletti ofan af einum síðasta skandal Breska heimsveldisins á dögunum þegar hann rakst á gögn sem merkt voru „trúnaðarmál“ í Þjóðskjalasafni Breta.

Arthur Hope var landstjóri á yfirráðasvæði Breta á Indlandi laust fyrir sjálfstæði Indlands árið 1947. Arthur hafði getið sér gott orð sem hermaður í fyrri heimsstyrjöldinni og síðar þingmaður. En Arthur var ekki allur þar sem hann var séður. Arthur var gefinn fyrir veðreiðar. Að veðja á réttan hest fór honum hins vegar illa úr hendi.

Árið 1944 varð ráðamönnum í Lundúnum ljóst að skuldir Arthurs voru ógn við orðstír kóngsins og gætu grafið undan valdi embættismanna á Breska Indlandi. Arthur hafði misnotað aðstöðu sína og þvingað innfædda til að lána sér fé. Auk þess lék grunur á að Arthur hefði tryggt mönnum riddaratign í skiptum fyrir lán. En ekki nóg með það. Arthuri hafði verið treyst fyrir fjármunum sem koma átti til Rauða krossins á Indlandi. Hvern einasta eyri, nánar tiltekið 40.000 pund (en á þessum tíma var meðalhúsnæðisverð í Bretlandi 610 pund), setti Arthur upp í eigin skuldir.

„Bölvaður þrjótur,“ skrifaði dómsmálaráðherra Breta í bréfi sem tilheyrir leynigögnunum í þjóðskjalasafninu. Ráðamenn ræddu hvernig taka ætti á málinu. Útilokað var að sækja Arthur til saka; slíkt beindi athygli heimsbyggðarinnar að „misferli fulltrúa kóngsins“. Til tals kom að láta föður Arthurs endurgreiða féð sem Arthur stal en einhverjum þótti „ósanngjarnt að láta syndir sonarins bitna á föðurnum“.

Niðurstaða náðist. Ráðherrar, Buckinghamhöll, MI6; allir voru á einu máli. Forsætisráðherrann Clement Attlee heimilaði að hylmt yrði yfir málið og breskt skattfé notað til að endurgreiða Rauða krossinum á Indlandi.

Mat á hagsmunum
Færri komust að en vildu á málþingi Lagastofnunar Háskóla Íslands um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í síðustu viku og kvað á um að ólöglega hefði verið staðið að skipan dómara við Landsrétt. Einn framsögumanna, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari og formaður Dómarafélags Íslands, sagði stjórnvöld verða að spyrja sig að því hvort sú ákvörðun sem tekin verður í tengslum við Landsréttarmálið verði til þess fallin að styrkja sjálfstæði réttarins og auka trú fólks á dómstólum landsins.

Í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins fullyrtu stjórnvöld að honum yrði áfrýjað. Í ræðu á Alþingi í vikunni dró Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, nokkuð í land og sagði að áður en endanleg ákvörðun yrði tekin þyrfti að liggja fyrir „ítarlegt mat á þeim hagsmunum“ sem eru undir.

Ósjálfráð viðbrögð
Það voru nánast ósjálfráð viðbrögð breskra stjórnvalda að breiða yfir misgjörðir manns úr þeirra eigin röðum; að sólunda skattfé almennings til að tryggja orðstír kóngs og heimsveldis; að varðveita eigið tilkall til valda. Þessi sömu ósjálfráðu viðbrögð sjást nú hjá þeim sem berjast hatrammlega í ræðu og riti gegn dómi Mannréttindadómstólsins.

Fáum dylst hvar hagsmunir almennings liggja í Landsómsmálinu. Til að „styrkja sjálfstæði réttarins og auka trú fólks á dómstólum landsins“ þarf einfaldlega að hlíta dómnum og stöðva í eitt skipti fyrir öll pólitísk afskipti stjórnmálamanna af skipunum dómara, böl sem Íslendingar hafa þurft að búa við allt of lengi.

Um hagsmuni hverra talar forsætisráðherra? Viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstólsins munu marka trúverðugleika íslenskra dómstóla um ókomna tíð. Munu þau standast prófið – eða verða það ósjálfráð viðbrögð ráðamanna að breiða yfir misgjörðir manns úr þeirra eigin röðum, að sólunda skattfé almennings til að tryggja orðstír Sjálfstæðisflokksins og að varðveita eigið tilkall til valda?