Athugun á úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála um framkvæmdarleyfi til Hvalárvirkjunar.

Stutt um málið: Ekki þarf raforku á Íslandi. Íslendingar þurfa ekki að óttast raforkuskort þrátt fyrir vandlega tímasettan hræðsluáróður þess efnis. HS Orka lýgur á sinni heimasíðu þar sem segir að raforkuþörf á Íslandi sé um þessar mundir meiri en framleiðsla. Raforka sem seld er til bitcoin námugraftrar nemur nú meir en notkun allra heimila landsmanna, en lunginn af allri raforku fer til stóriðju. Bitcoin er bull sem verður að stemma stigu við með lögum. Íslendingar munu ekki hagnast af Hvalárvirkjun heldur erlend stórfyrirtæki. Ekkert starf skapast við virkjunina. Raforkuöryggi mun ekki batna á landssvæðinu, né vegasamgöngur til byggðarinnar. Íslendingar eru látnir afhenda víðerni sín fyrir kr. 0 og eyðileggja náttúruperlur og víðerni sem eru með þeim síðustu ósnortnu í Evrópu. Eins og í tilviki laxeldis í sjó eru það örfáir menn sem eigna sér náttúruauðlindir landsmanna og eyðileggja hana með sínum umsvifum til að græða pening. Með öðrum orðum: drulludíll.

Sveitastjórn Árneshrepps hefur gefið framkvæmdarleyfi til handa VesturVerki við rannsóknir fyrir Hvalárvirkjun. Framkvæmdaleyfið hefur verið kært af fjölda aðila, m.a. landeigendum Drangavíkur en úrskurður liggur ekki fyrir. Framkvæmdir við rannsóknir fela í sér óafturkræfa eyðileggingu samkvæmt röksemdarfærslu hinna ólíku kærenda (Hægt er að sjá kærurnar hér.)

Hvorki viðamikið né fordæmisgefandi

Samkvæmt stjórnsýslulögum fer Umhverfis og auðlindaráðuneyti með náttturuvernd (2. gr.) og umhverfisárbyrgð (9. gr). Úrskurð til bráðabirgða hafa kveðið upp þrír nefndarmenn úrskurðarnefndar: Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Þegar maður les úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála frá 19. júlí, við beiðni kærenda um stöðvun á framkvæmdum þartil búið er að útkljá mál kærenda, kemur ýmislegt í hug sem varðar störf og umboð þessarar nefndar. Hér er á ferð fólk með gríðarlegt vald.

Úrskurðarnefnd ráðuneytisins er skipuð formanni og misjafnt mörgum nefndarmeðlimum eftir eðli mála. Þeim ber að hafa verksvið ráðuneytisins efst á baugi og gæta fyllstu hlutlægni í sinni málsmeðferð. Í fyrsta lagi ber að líta til 3. greinar laga er varða starfshætti nefndarinnar, þar segir: „Ef mál er viðamikið eða fordæmisgefandi skulu fimm menn sitja í nefndinni.“

Niðurstaða frá þessum þriggja manna skyndifundi tjáir okkur að úrskurðarnefndin telur Hvalárvirkjunarmálið hvorki „viðamikið eða fordæmisgefandi». Strax hér opinberast kolrangt mat úrskurðarnefndar. Hvalárvirkjunarmálið er, eins og allir sem hafa kynnt sér vita, bæði fordæmisgefandi og viðamikið – ég leyfi mér að segja að ekkert mál síðustu ára sé jafn fordæmisgefandi.

Í öðru lagi ber að líta til niðurstöðu úrskurðarnefndar, en þar segir: „Hefur úrskurðarnefndin aflað nánari upplýsinga frá leyfishafa um framkvæmdatíma.» Með „framkvæmdartíma» virðist átt við verklýsingu VesturVerks, þ.e. hvers eðlis framkvæmdir eru sumarið 2019 og næsta sumar, 2020. Einungis er vísað til lýsingar og mats VesturVerks á framkvæmdum sumarið 2019 í niðurstöðu úrskurðarnefndar. Sú lýsing er í engu samræmi við lýsingar landeigenda á svæðinu, heimamanna og annarra kæruaðila er kynnt hafa sér fyrirhuguð umsvif við vegagerð, efnistöku og brúargerð. Þar er kjarni máls sá að samkvæmt mati kæruaðila er um óafturkræfar framkvæmdir að ræða árið 2019.

Úrskurðarnefnd stólar að því er virðist í úrskurði sínum á algerlega vanhæft mat virkjunaraðilans (VesturVerks) og hreppsnefndar Árneshrepps, og skrifar að: „ekki sé til staðar sú hætta á óafturkræfu tjóni að leiði [sic] eigi til stöðvunar framkvæmda» (Sjá úrskurðinn hér).

Er þetta til marks um óvísindaleg vinnubrögð hjá nefnd þar sem þess er krafist að meðlimir hafi háskólagráður í sínu fagi. Í 1. gr. laga um hlutverk nefndarinnar segir: „Úrskurðarnefndin er sjálfstæð í störfum sínum.» Sjálfstæð vinnubrögð væri að taka tillit til málflutnings beggja aðila er kemur að mati á eyðileggingu við rannsóknarframkvæmdir á svæðinu. Í sumar á að moka upp þúsundum tonna af efni úr Hvalárósum og þá segist leyfishafi ætla að gera plan fyrir vinnubúðir norðan við Hvalá, þ.e. fletja út og fylla upp í 5,8 hektara lands. Skekkjan hér er m.a. sú að Minjastofnun skrifar 17. júlí síðastliðinn að ekki megi hefja neinar framkvæmdir norðan við bæjarstæði Ófeigsfjarðar, fyrr en fornleifaskráning hefur verið uppfærð á því svæði (sjá bréf Minjastofnunar bls. 7–8). Þetta hefur ekki verið gert. Í takt við verklýsingu böðuls, gefur úrskurðarnefnd auðlindar og umhverfismála hinsvegar grænt ljós á að hefja stórar framkvæmdir norðan við ósa Hvalár, sem aftur er langt norðan við bæjarstæði Ófeigsfjarðar.

Er það mjög alvarlegt ef ríkisstofnun gætir ekki hlutleysis er hún dæmir í slíkum stórmálum, og dæmir að auki í blóra við aðra ríkisstofnun.

Að damla í haus með öxi og sjá til

Að síðustu ber að líta til þess tungutaks sem er á bréfi úrskurðarnefndar. Þar er í upphafi talað um að úrskurður sé kveðinn upp „til bráðabirgða». Allir vita að slík rannsóknarleyfi eru tilraun til að sölsa undir sig landið, og byrja eyðilegginguna svo ekki verði aftur snúið. „Lagfæringar» á vegi Ingólfsfjarðar, munu enda með svöðusári síðar meir þegar gera á búkolluveg um svæðið. Hvernig má það vera til bráðabirgða að gefa slík merki til virkjunaraðilans? Því mætti líkja við að leyfa böðlinum að damla aðeins í haus þess sem er stilltur af á stabbanum, úr því hann er kominn í stellingarnar hvort eð er. Hér afsalar möo. úrskurðarnefnd sér ábyrgð sinni og varpar henni yfir á leyfishafa, í þessu tilviki virkjunarböðulinn VesturVerk. Til að undirstrika þetta afsal ábyrgðar endar úrskurðarnefnd sína niðurstöðu með því að segja að leyfishafi beri alla áhættu á að hefja framkvæmdir, áður en búið er að leiða kærumál til lykta, þ.e. að viðkomandi fórnarlambi ekki blæði út á stabbanum áður en dæmt er í málinu.

Af þessu að dæma virðist úrskurðarnefnd ekki valda þeirri ábyrgð og því mikla valdi sem henni er veitt af stjórnvöldum í þessum bráðabirgða-úrskurði. Úrskurðarnefnd hefur þó til allrar hamingju ekki hafnað máli kærenda, og vita skulu nefndarmeðlimir að augu margra verða á þeim er þau taka fyrir þau kærumál sem borist hafa.