Síðastliðinn þriðjudag voru Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar veitt. Eins og lífið sjálft um þessar mundir var verðlaunaafhendingin látlausari en venja er. Vegna heimsfaraldursins voru úrslitin ekki tilkynnt með pompi og prakt við hátíðlega athöfn heldur tók höfundurinn við verðlaunaskjali og blómvendi í kyrrþey við Tjörnina í félagsskap styttu skáldsins Tómasar Guðmundssonar.

Sama dag átti pabbi minn stórafmæli. Hátíðahöldin urðu með öðru sniði en óprúttin afkvæmi hans höfðu áformað; við hugðumst gera okkur mat úr tímamótunum – bókstaflega – og láta þann gamla splæsa í fínt út að borða fyrir hjörðina. Pabbi slapp. Þegar ég hringdi í hann úr sóttkví í London til að óska honum til hamingju var hann nýkominn úr bíltúr og hugðist gæða sér á eggjum, beikoni og bökuðum baunum og það í kvöldverð.

Tilveran er öll önnur en við eigum að venjast. Hátíðarstundir eru lágstemmdar. Stóru andartökunum er slegið á frest. Ég á frænku sem hefur frestað brúðkaupinu sínu tvisvar. Aðra sem blés af fermingarveisluna. Sjálf sit ég í London með splunkunýtt þriggja mánaða barn, heitt á könnunni en enga ættingja sem geta komið að skoða það.

Að jarða drauma sína

Verðlaunahafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar árið 2020 er Ragnheiður Lárusdóttir. Ragnheiður er fædd árið 1961. Hún hefur kennt íslensku og ljóðlist um áratugaskeið. „Það er dásamleg og merkileg lífsreynsla þegar draumar rætast,“ sagði Ragnheiður í tilefni verðlaunanna. Ragnheiður hefur skrifað ljóð í leyni frá því að hún var barn. „Ég jarðaði ljóðin mín,“ sagði Ragnheiður. „Ég er viss um að það er til fullt af svona krökkum og fullorðnu fólki sem reynir dag hvern að jarða drauma sína, því vil ég segja við alla krakka á öllum aldri: Ekki gera drauma þína að lífsleyndarmáli og ekki jarða drauminn þinn, leyfðu honum að lifa og vaxa, annars grefurðu þína eigin gröf.“

Það fennir yfir drauma í kófinu. Í vikunni mátti lesa fréttir af óvissu tónlistarfólks um hvort hægt verði að halda jólatónleika í ár. Söngvarinn Björgvin Halldórsson mun syngja fyrir tómum sal á Jólagestum Björgvins.

Afleiðingar samkomubanns eru ekki síður miklar fyrir annan hóp listamanna. Rithöfundar verða seint þekktir fyrir úthverfu. Þeir koma þó margir út úr skelinni í aðdraganda jóla til að kynna afrakstur oft margra ára vinnu með upplestrum á bókakvöldum.

Ljóðabókin 1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur, handhafa Tómasarverðlaunanna 2020, er mér ekki alveg óviðkomandi, en ég sat í dómnefnd verðlaunanna. Í verkinu segir frá prestsdóttur að vestan, vegferð hennar um torfarnar heiðar jafnt sem lífsins rangala. Bókin samanstendur af tærum hversdagsmyndum sem í fyrstu virðast léttvægar; hálfdauðar flugur í gluggakistu kirkjunnar; póstskorturinn sem skellur á þegar ófært er yfir heiðina. En þegar líða tekur á verkið verður lesanda ljóst að það er einmitt í þessum léttvægu stundum sem lífið liggur og örlögin ráðast. Eða eins og segir í umsögn dómnefndar: „Það fellur að og fjarar út, bönd verða til og þau slitna, draumar rætast og vonir bresta, allt yfir kaffibolla, nýveiddum silungi og Andrésblöðum.“

Hömlurnar á tilverunni nú um stundir varpa ljósi á stórfengleika hins smáa og áhrifamátt hversdagsleikans. En eins og hin nýkrýnda skáldkona bendir jafnframt á megum við ekki missa sjónar á draumunum.

Mikilvægi þess að lesa bækur er á allra vitorði. Þar með er þó ekki öll sagan sögð.

Nú er við gerum okkur að góðu hið smáa – blómvönd og bakaðar baunir – er rétt að hvetja þá sem tök hafa á til þess að styðja við stóra drauma. Því til að bókmenning þrífist þarf fólk ekki aðeins að lesa bækur, það þarf að kaupa bækur.