Neytendasamtök um alla Evrópu hyggjast taka saman upplýsingar um þau fyrirtæki sem enn stunda viðskipti í Rússlandi. Er það gert svo að neytendur geti sjálfir ákveðið hvort þeir skipti við fyrirtækin eða sniðgangi þau. „Við fengum alveg magnaða ræðu frá fulltrúa neytendasamtaka Úkraínu og í kjölfarið var samþykkt að búa til þennan lista,“ sagði Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við Fréttablaðið í vikunni þar sem hann var staddur í Brussel á fundi Evrópusamtaka neytenda.

Við upphaf innrásar Rússa í Úkraínu hvatti Volodímír Selenskíj, forseti landsins, fyrirtæki til að hætta viðskiptum í Rússlandi því að þau væru „drifin blóði“ Úkraínumanna. Fjöldi alþjóðlegra fyrirtækja varð við þeirri bón. En ekki öll. Yale-háskóli í Bandaríkjunum heldur úti lista yfir fyrirtæki sem enn stunda viðskipti í Rússlandi. Á honum má finna nokkur íslensk fyrirtæki, svo sem Hampiðjuna og Knarr Maritime, sem gera sér blóðpeninga að góðu.

Væntanlegur listi Neytendasamtakanna er upp á líf og dauða. Ekki er þó víst að starfsemi allra íslenskra fyrirtækja sem á honum lenda sé þess eðlis að neytendur geti tjáð þeim hug sinn með veskinu. Það er hins vegar hægt að fanga athygli eigenda þeirra eftir fleiri leiðum en í gegnum rekstrarreikninginn.

Eins dauði, annars brauð

Hinn 20. apríl árið 1879 var haldinn fjöldafundur í þorpinu Irishtown á Írlandi. Óhagstæð veðurskilyrði, uppskerubrestur og lágt búvöruverð ollu því að leiguliðar í nærliggjandi sveitum bjuggu við sára fátækt og gátu ekki lengur staðið skil á leiguafgjaldi til jarðeigenda. Fimmtán þúsund manns mættu til fundarins sem markaði upphaf „írska landstríðsins“, áralangrar baráttu um lækkun jarðleigu, breytingar á eignarhaldi lands og bann við útburði fjölskyldna af heimilum sínum.

Charles Cunningham Boycott var enskur bústjóri landeiganda eins á Vestur-Írlandi. Í september 1880 óskuðu leiguliðar á landi í umsjá hans 25 prósenta leigulækkunar vegna bágrar afkomu. Boycott neitaði. Í mótmælaskyni hættu leiguliðarnir alfarið að greiða leiguna. Boycott gerði sig líklegan til, eins og venjan var, að bera leiguliðana og fjölskyldur þeirra út. Honum varð þó ekki kápan úr því klæðinu. Í samhentu átaki samfélagsins alls var Boycott sniðgenginn. Hvert sem hann fór var hann hunsaður. Hann fékk ekki afgreiðslu í verslunum. Þjónustufólk hans hætti. Vinnumenn neituðu að starfa fyrir hann. Meira að segja póstburðarmaðurinn hætti að færa honum póst.

Aðferðafræðin vakti gífurlega athygli. Hún breiddist um Írland og varð þáttur í því að leiguliðar hlutu að endingu aukin réttindi.

Boycott, orðinn alræmdur fyrir miskunnarleysi sitt, hrökklaðist burt frá Írlandi. Hann varð þó frægur fyrir fleira. Bústjórinn komst á spjöld sögunnar sem maðurinn sem breyttist í sagnorð. Nafn hans lifir enn í enskri tungu, þökk sé samtímamönnum hans sem tóku að nota orðið „boycott“ í merkingunni að sniðganga einhvern eða eitthvað.

„Eins dauði er annars brauð“ öðlast bókstaflega merkingu nú um stundir. Svo virðist sem úkraínsk mannslíf séu ekki öllum íslenskum fyrirtækjum næg ástæða til að láta af viðskiptum við Rússland. Kannski að óttinn við sniðgöngu – efnahagslega eða samfélagslega – leiði til sinnaskipta stjórnenda þeirra. Dugi hann þó ekki til mætti grípa til óhefðbundinna aðferða. Samhliða birtingu lista Neytendasamtakanna væri hægt að efna til nýyrðasamkeppni. Landsmönnum yrði falið að mynda sögn úr nafni fyrirtækis á listanum sem, eins og Boycott bústjóri, ætti á hættu að komast á spjöld sögunnar í gegnum tungumálið. Sögninni væri ætlað að fanga merkinguna: Að fara með blóðpeninga í bankann.