Það kostaði blóð, svita og tár að komast til valda, sagði Bjarni Benediktsson eftirminnilega í Silfrinu um helgina.

Ólíkt Winston Churchill, sem sagðist ekkert geta boðið þjóð sinni nema blóð svita og tár, í viðleitni til að þjappa henni saman á ögurstundu, notaði formaður Sjálfstæðisflokksins þessi orð til að útskýra erfiðið sem stjórnarflokkarnir þurftu að leggja á sig til að komast í ríkisstjórn. Það réttlætti það, að hans mati, að halda þingkosningar eins seint og mögulegt er – þrátt fyrir að hefð sé fyrir vorkosningum á Íslandi og augljósum kostum þeirra. Nægir að nefna þann tíma sem tekur að semja vönduð fjárlög.

Líklega er formaður Sjálfstæðisflokksins ekki bjartsýnn á úrslit næstu kosninga og það kemur ekkert á óvart að Sjálfstæðismenn vilji ríghalda í ráðherrastólana, nú þegar fálkanum er að fatast flugið.

Hvort sem kosið verður að vori eða hausti 2021 er mikilvægast að skipta um kúrs. Formenn stjórnarflokkanna sögðu ríkisstjórnina myndaða um póli­tískan stöðugleika. Útkoman varð frekar pólitísk stöðnun.

Þegar stjórnmálamenn tala um „blóð, svita og tár“ fer betur á því að það sé í þágu almannahagsmuna en ekki til að vorkenna sér yfir því hversu erfitt hafi verið að komast til valda.

Verkefnin eru ærin. Við þurfum nú þegar að jafna lífskjör í landinu. Sjá til þess að fólk á lágum og meðallaunum hafi meira öryggi og fjárhagslegt svigrúm í dýru landi. Minnka skerðingar og jaðarskatta. Til þess þarf ríkasta og eignamesta fólk landsins að leggja aðeins meira af mörkum.

Handan hornsins bíða okkar önnur risastór verkefni sem þessari ríkisstjórn er ekki treystandi fyrir. Við verðum að horfast í augu við loftslagsvandann. Við verðum að mæta fyrirsjáanlegum þjóðfélagsbreytingum samfara nýrri tækni með stórsókn í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Styðja við lítil fyrirtæki og skapa fjölbreytt störf.

Verkefni næsta árs er að mynda ríkisstjórn um jöfnuð og framfarir. Samfylkingin er klár í slaginn.