„Við erum svo spennt yfir að vígja nýja Max-vél. Þetta er fyrsta flugið,“ heyrði ég flugfreyju segja við fólk sem sat fyrir aftan mig í vélinni þegar ég var að koma mér þægilega fyrir í sætaröð sem ég hafði út af fyrir mig (af einskærri heppni). Fyrir stafni var langt flug frá Seattle til Keflavíkur. Í stað þess að sofa værum blundi ásóttu mig fréttainnslög frá Max 737 flugslysunum, sem urðu árin 2018 og 2019. Flugvélarnar voru kyrrsettar í kjölfarið.

Nú er ný ríkisstjórn að taka á loft og bindur maður vonir við betri tíð. Nú verður hrist upp í hreiðrinu. Aðgerðir sem byggðar eru á gagnreyndri þekkingu munu fljúga úr þingsal og lenda með lausnamiðaðri nálgun sem styður við heilsu og líðan okkar almúgans. Því til að efla heilsu þjóðarinnar, fækka sjúkdómum og bæta líðan fólks, þarf að liggja yfir skýrslum sem sýna svart á hvítu hvað virkar – og hvað ekki. Að gera það ekki er eins og að setjast upp í flugvél með flugstjóra sem fékk flugskírteinið sitt úr kókópuffspakka og ætlar að treysta á eigin tilfinningar.

Mestu framfarir í lýðheilsumálum verða þegar menn horfa í skýrslur sem byggja á rannsóknum, læra af þeim og aðlaga samfélaginu. Á flugfreyjuárum mínum lærði ég um ótal flugslys. Ekki var þetta gert til að hræða okkur, heldur til að læra af mistökum annarra og öðlast betri þekkingu til að auka öryggi farþega. Á milli þess sem ég reyndi að hughreysta mig með því að ég væri í öruggum höndum flugáhafnar missti hjartað slag við tilhugsunina um að ég hefði í raun enga stjórn á aðstæðum. Nú er spurning hvort við þurfum að missa slag yfir lýðheilsuaðgerðum þingsins. Erum við að fara að horfa á blindflug eða verða vel upplýstir flugstjórar við stjórnartaumana.